Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fréttatilkynning frá menntamálaráðuneyti og Háskóla Íslands vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu- og fjárhagsúttekt á Háskóla Íslands

Ríkisendurskoðun hefur skilað menntamálaráðherra úttektarskýrslu um fjárhag og stjórnsýslu Háskóla Íslands.

Ríkisendurskoðun hefur skilað menntamálaráðherra úttektarskýrslu um fjárhag og stjórnsýslu Háskóla Íslands. Meginniðurstöður úttektarinnar fela í sér að Háskóli Íslands hafi náð góðum árangri í starfsemi sinni, að ástæða sé til að huga að breytingum á skipulagi háskólans og að bregðast þurfi við erfiðri fjárhagsstöðu hans.

Menntamálaráðherra óskaði eftir því 12. febrúar 2004 að Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýslu- og fjárhagsúttekt á Háskóla Íslands. Tilefnið var mikil uppbygging háskólastarfsemi í landinu á undanförnum árum. Æ fleiri hafa leitað sér háskólamenntunar, námsfamboð hefur aukist og er orðið mun fjölbreyttara en áður. Fjárframlög til til rannsókna- og kennslustofnana hafa farið hækkandi í takt við fjölgun nemenda. Ríkisendurskoðun var falið að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár og hvort hagkvæmni og skilvirkni væri gætt í rekstri Háskóla Íslands.

Almennt má segja að Háskóli Íslands komi vel út í akademískum samanburði við erlenda háskóla. Rannsóknarvirkni íslenskra vísindamanna eins og hún er mæld í fjölda birtra greina í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum hefur vaxið og er tiltölulega há í alþjóðlegum samanburði, en þó tiltölulega lág miðað við Norðurlöndin, að Noregi undanskildum. Fjöldi útskrifaðra nemenda í grunn- og meistaranámi er mikill og doktorsnemum hefur fjölgað.

Í skýrslunni er gerður alþjóðlegur samanburður á fjárveitingum til HÍ og nokkurra valinna skóla í Evrópu sem eru með áþekka samsetningu á námsframboði. Þessi samanburður sýnir að þrátt fyrir að heildarframlög til HÍ og háskóla á Íslandi hafi farið hækkandi eru fjárveitingar til háskólans hlutfallslega lágar. Fram kemur að Háskóli Íslands sé ódýr í rekstri í samanburði við sambærilega háskóla í nágrannalöndum. Þetta má skýra með mikilli skilvirkni, hlutfallslega fáum framhaldsnemum og mörgum stundakennurum. Skólinn hefur m.a. brugðist við fjölgun nemenda með því að stækka hópa sem sækja fyrirlestra og fella niður einstök námskeið. Þó svo að fé til rannsókna hefur nánast staðið í stað hafa afköst í rannsóknum aukist.

Stjórnendur HÍ hafa gætt þess á liðnum árum að haga rekstri skólans í samræmi við fjárveitingar og aðrar tekjur og hefur verið gripið til ýmissa aðhaldsaðgerða. Hlutfall annarra tekna en ríkisframlaga er tiltölulega hátt hjá Háskóla Íslands í samanburði við erlenda háskóla sem gerður var samanburður við. Fjöldi nemenda á heildarársverk er svipaður og í samanburðarskólunum en kostnaður við hvert ársverk er lágur og hlutfall starfsfólks við stjórnsýslu, tæknistörf og aðra þjónustu er tiltölulega lágt í samanburði við aðra skóla. Hætt er við að núverandi fjárhagsstaða Háskólans komi í veg fyrir að hann geti þróast sem öflugur rannsóknaháskóli með framhaldsnámi og rannsóknum sem standast alþjóðlegan samanburð.

Bent er á að viðbrögð við þessu geti einkum verið af þrennum toga: Að takmarka nemendafjölda, að hemja kostað enn frekar og að afla aukinna tekna.

Í skýrslunni er jafnframt bent á að Háskóli Íslands hafi stækkað mikið, umsvif aukist, starfsemin orðið margþættari og háskólinn þurfi að mæta aukinni samkeppni. Allt þetta kalli á sífellt meiri kröfur um fagmennsku, þekkingu og reynslu í stjórnun. Ríkisendurskoðun leggur til að Háskóli Íslands hugi að breytingum á stjórnskipulagi, ábyrgð deildarforseta, tengslum rektors og deildarforseta, vali á deildarforsetum, verkaskiptingu og samskiptum miðlægrar stjórnsýslu og stjórnsýslu í deildum, fjölda deilda, ráðningarferli, fjármála- og rekstrarstjórnun í deildum, fjármálastýringu og eftirliti með rekstri.

Ríkisendurskoðun leggur til að menntamálaráðuneytið móti í samvinnu við Háskóla Íslands skýra stefnu um framtíðarþróun Háskólans, áhersluatriði í starfi hans, rekstrarform, ráðningu rektors, skipan háskólaráðs, opinbera fjármögnun, vægi samkeppnissjóða, bein framlög til rannsókna, skólagjöld, ábyrgðar í launamálum, verkaskiptingu háskóla, fámennar námsbrautir og gæðaeftirlit.

Menntamálaráðherra og rektor lýsa ánægju með skýrslu Ríkisendurskoðunar. Að mati þeirra kalla niðurstöður hennar á víðtækar umræður um fjármögnun háskólastigsins á Íslandi og skipulag íslenskra háskóla.

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, og rektor Háskóla Íslands, Páll Skúlason, verða til reiðu óski fjölmiðlar eftir viðbrögðum þeirra vegna skýrslunnar í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu kl. 15:15 í dag, miðvikudag 20. apríl, síðasta vetrardag.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum