Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á vorfundi Veðurstofunnar

Ávarp umhverfisráðherra, Sigríðar Önnu Þórðardóttur, á vorfundi Veðurstofunnar

Hótel Loftleiðum, 22. apríl 2005

Góðir gestir,

Það er mér mikil ánægja að fá að ávarpa hér vorfund Veðurstofu Íslands á þessum öðrum degi sumars árið 2005. Veðurstofan er ein af lykilstofnunum umhverfisráðuneytisins, en hún er líka þjóðareign. Mér er til efs að almenningur sýni starfsemi veðurfræðistofnana erlendis jafn mikinn áhuga og hér á landi. Stundum kemur það ekki til af góðu, því þeir eru margir sem kvarta ef þeim finnst spáin ekki ganga nógu vel eftir. Ég leyfi mér þó að fullyrða að almennt nýtur Veðurstofan mikils stuðnings og velvildar - og skilnings á því að starf ykkar hér er erfiðara en í löndum þar sem veður er mildara og höfuðskepnurnar fyrirsjáanlegri.

Um síðustu áramót tóku gildi lög um veðurþjónustu. Tímabært þótti að skilgreina verkefni hins opinbera á sviði veðurþjónustu nánar í lögum, meðal annars vegna ýmissa álitamála sem höfðu risið um hlutverk ríkisins og einkaaðila, sem geta boðið upp á ýmsa þjónustu sem verið hefur á verksviði Veðurstofunnar. Þessi lagasetning var þörf að mínu mati. Það er eðlilegt að skoða reglulega verkefni hins opinbera á einstökum sviðum og hvernig best er hægt að nýta almannafé. Bæði tækni og viðhorf taka breytingum og sjálfsagt er að skoða hvort einkaaðilar eru færir til að taka að sér verkefni sem alla jafna hafa verið á könnu ríkisins. Slík skoðun er ekki til þess fallin að grafa undan ríkisstofnunum, heldur þvert á móti að styrkja þær í að sinna þeim verkefnum sem brýnust eru og best þjóna almenningi.

Það er vissulega þörf fyrir sterka stofnun á borð við Veðurstofu Íslands, ekki síst vegna öryggishagsmuna. Hér eru veður válynd og margvísleg ógn getur skapast vegna veðuraðstæðna. Þetta á ekki síst við um snjóflóð og önnur ofanflóð. Hér hefur verið komið á öflugu kerfi varna og vöktunar í kjölfar snjóflóðanna mannskæðu á Vestfjörðum fyrir áratug. Þetta kerfi hefur sannað gildi sitt á umliðnum árum og einnig á þeim vetri sem nú er að ljúka. Hættuástandi var lýst yfir á nokkrum svæðum nú í vetur og hús rýmd þegar sérfræðingar töldu ástæðu til og áður en snjóflóð féllu inn í byggð, þótt sem betur fer hafi ekki eyðilagst hús í þeim flóðum. Vissulega má finna hnökra á framkvæmd þessa kerfis, en því verður þó varla í móti mælt að íbúar á snjóflóðasvæðum búa við margfalt meira öryggi en áður. Veðurstofan á þakkir skildar fyrir sinn hlut í þessum málum.

Veðurstofan vaktar ekki einungis vá af völdum veðurfars, heldur einnig vegna jarðskorpuhreyfinga. Erfitt er að spá fyrir um veðrið, en þó er enn erfiðara að spá fyrir um eldgos og jarðskjálfta. Afleiðingar jarðskjálftanna ógurlegu við Súmötru eru enn í fersku minni, en þar hefði verið hægt að afstýra miklu manntjóni ef viðvörunarkerfi vegna flóðbylgna hefði verið til staðar. Hér á landi var fyrr á þessu ári tekinn í notkun áfangi af bráðaviðvörunarkerfi, sem á að nýtast vísindamönnum til að meta líkur á hamförum og koma upplýsingum markvisst til Almannavarna og annarra yfirvalda, auk almennings og fjölmiðla, til að hægt sé að bregðast við yfirvofandi vá á réttan og skjótan hátt.

Áfram verður unnið að því að byggja þetta kerfi upp og bæta vöktun og viðbragðskerfi vegna jarðskjálfta og eldgosa. Ástæða er til þess að spyrja hvort reynslan af því kerfi sem sett hefur verið upp vegna ofanflóða, svo sem við gerð hættumats fyrir allt landið, geti nýst við aðrar gerðir náttúruvár. Nú er að hefjast endurskoðun á stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun, þar sem meðal annars er kveðið á um að auka öryggi fólks gegn náttúruvá. Drög að endurskoðaðri stefnumörkun verða lögð fyrir 4. Umhverfisþing í október næstkomandi og verða rædd þar. Þar gefst tækifæri til að skoða og ræða hugmyndir sem kunna að koma fram í þessum efnum og lýsi ég hér með eftir slíkum hugmyndum.

Veðurstofan er stöðugt að leita leiða til að bæta þjónustu sína og auka hagkvæmni í rekstri. Hluti af þeirri viðleitni felst í því að fjölga sjálfvirkum veðurathugunarastöðvum á kostnað mannaðra stöðva. Slíkar breytingar eru stundum umdeildar, en Veðurstofunni ber eins og öðrum að nýta sér breytta og bætta tækni og leita hagkvæmustu leiða til að sinna starfi sínu. Tölvutæknin tekur stórstígum framförum og eykur meðal annars getu manna til að spá lengra og áreiðanlegar fram í tímann. Styrkur Veðurstofunnar felst þó ekki í tölvum og öðrum tæknibúnaði, heldur í starfsmönnum stofnunarinnar, sem standa vaktina 24 tíma á sólarhring, allan ársins hring. Þó að Íslendingar séu flestir sjálfskipaðir veðurfræðingar og fjölmiðlar skemmti sér og öðrum reglulega með veðurspám vísra manna og berdreyminna, þá dugar slíkt skammt. Það er mikil nauðsyn að eiga menntaða sérfræðinga á sviði náttúruvísinda sem sinna þeim verkefnum sem Veðurstofan hefur með höndum. Ég vil þakka öllum starfsmönnum Veðurstofunnar fyrir ykkar góða starf og vænti góðs af samstarfinu við ykkur í framtíðinni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum