Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Opnunarávarp á málþingi um "Gildi friðlýstra svæða fyrir ferðamenn"

Opnunarávarp Sigríðar Önnur Þórðardóttur á fundi undir yfirskriftinni

"Gildi friðlýstra svæða fyrir ferðamenn"

á Degi umhverfisins 25. apríl 2005

Góðir fundarmenn,

Degi umhverfisins er nú fagnað í 7. sinn, en árið 1999 var í ríkisstjórn samþykkt að tileinka umhverfinu 25. apríl ár hvert. Dagurinn er fæðingardagur Sveins Pálssonar, en hann lauk prófi í náttúrufræðum árið 1791 og var fyrstur Íslendinga til að stunda skipulegar rannsóknir á náttúru landsins. Tilgangurinn með því að halda sérstakan umhverfisdag er að minna skólafólk, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök, fjölmiðla og allan almenning á mikilvægi þess að huga að verndun umhverfisins, sjálfbærri þróun og náttúru landsins og efla umræðu um þessi mál. Það er margt sem almenningur getur gert í daglegu lífi til þess að hlúa að umhverfinu, s.s. kaupa umhverfisvænar vörur, auka endurnýtingu, spara orku og umgangast náttúruna með virðingu og á þann hátt að hún láti ekki á sjá. Dagurinn í dag minnir okkur á að við berum öll ábyrgð á verndun náttúrunnar og því að nýting auðlinda sé sjálfbær. Fjöldi félagasamtaka, sveitarfélaga og fyrirtækja taka þátt í þessum degi með ýmsum hætti og þessi fundur er m.a. framlag umhverfisráðuneytisins til dagsins.

Fyrr í dag var fjórum fyrirtækjum veittar umhverfisviðurkenningar ráðuneytisins fyrir að hafa í rekstri sínum lagt ríka áherslu á umhverfismá. Vonast ég til að þessar viðurkenningar verði til þess að jákvæð framganga þessara fyrirtækja verði öðrum hvatning til góðra verka á þessu sviði.

Fyrir tæpu ári hlotnaðist okkur sá heiður að Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var tekinn inn á heimsminjaskrá UNESCO, fyrst og fremst vegna menningarminja, en jafnframt var viðurkennt að náttúra Þingvalla er einstök, einkum með tilliti til landreks og plötuskila. Nær undantekningalaust fjölgar komu ferðamanna til staða sem teknir eru inn á heimsminjaskrána. Um leið og við eignumst stað á skránni undirgöngumst við þá ábyrgð og skyldur að vernda og varðveita Þingvelli.

Ísland hefur auk þess undirgengist margvíslegar skyldur á alþjóðlegum vettvangi með aðild að alþjóðlegum samningum, eins og samningnum um líffræðilega fjölbreytni, Ramsar-samþykktinni um verndun votlendis fyrir fuglalíf, Bernar-samningnum um tegundir og búsvæði í Evrópu og aðild að samþykktum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Jafnframt erum við aðilar að heimssamþykkt þjóðarleiðtoga í Jóhannesarborg árið 2002 um sjálfbæra þróun og verndun náttúru heimsins. Það er einkum eitt atriði sem ég vil nefna frá Jóhannesarborgarfundinum, þar sem það tengist umræðuefninu hér í dag, og það er hlutverk friðlýstra svæða í verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Á fundinum var samþykkt að árið 2010 verði búið að draga verulega úr tapi á líffræðilegri fjölbreytni á þurrlendi og árið 2012 í hafinu. Ein leiðin að þessu markmiði er að fjölga friðlýstum svæðum og gera stjórnun og verndun þeirra sem fyrir eru markvissari.

Þar var einnig samþykkt að hvetja til aukinnar sjálfbærni í ferðamennsku, umhverfis- og vistvænni ferðamennsku í anda samþykkta International Year of Eco-tourism 2002, World Eco-tourism Summit 2002 og alþjóða siðareglna ferðamanna sem Alþjóða ferðamálasamtökin hafa samþykkt í þeim tilgangi að stuðla að auknum tekjum heimamanna af ferðamennsku um leið og menningarlegum og náttúrulegum verðamætum ferðamannastaða er viðhaldið. Þá er einnig hvatt til aukinnar verndunar viðkvæmra svæða og náttúruminja.

Ferðamennska hér á landi byggir að verulegu leyti á náttúru landsins og stærstur hluti erlendra ferðamanna kemur til landsins til þess að sjá, fræðast og njóta náttúrunnar. Árið 2003 komu til landsins um 320.000 erlendir ferðamenn en um helmingur þeirra kom til landsins í sumarmánuðum þremur, frá júní fram í ágúst. Miðað við þróun ferðamennsku undanfarin ár og áætlanir um fjölda ferðamanna til landsins næstu árin má búast við að hingað geti komið um 630.000 ferðamenn árið 2012 og allt að ein milljón árið 2020. Þetta er um 6% aukning á ári. Gangi þessar spár eftir er brýnt að gera verulegar úrbætur á flestum ferðamannastöðum landsins á næstunni til að þeir láti ekki á sjá og geti tekið við auknum ferðamannastraumi í framtíðinni.

Nú eru rúmlega 90 svæði friðlýst hér á landi og nema þau um 15 prósentum af flatarmáli landsins. Þessi svæði skiptast í þjóðgarða, friðlönd, náttúruvætti, fólkvanga, búsvæðafriðun og svæði sem friðuð eru með sérstökum lögum. Tilgangur með friðlýsingu þessara svæða er afar mismunandi allt frá því að vera vísindalegur, eins og í Surtsey þangað sem enginn fær að fara nema til vísindarannsókna, yfir í það að vera til útivistar og afþreyingar fyrir almennig, eins og gildir um flesta fólkvangana. Nærri lætur að um helmingur svæðanna sé friðlýstur vegna jarðfræði eða landslags og allt að helmingur vegna lífríkis og þá í mörgum tilfellum vegna fuglalífs. Nokkur friðlýst svæði eru afar mikilvæg vegna verndunar á líffræðilegri fjölbreytni, tegunda sem eru í hættu eða vegna alþjólegs gildis. Þrátt fyrir friðlýsingu hefur hefðbundnin nýting haldist á flestum svæðanna, enda getur friðun og nýting oft á tíðum farið saman, að því uppfylltu að nýtingin sé sjálfbær og gangi ekki gegn markmiðum friðlýsingarinnar. Markmið geta verið þess eðlis að setja þurfi nýtingu ákveðnar skorður, sérstaklega þar sem verið er að vernda líffræðilega fjölbreytni, ákveðnar tegundir sem eru viðkvæmar fyrir röskun eða þar sem mikilvægt er talið að að fylgjast með framvindu náttúrunnar eða hafa vísindaleg viðmiðunarsvæði. Það getur því reynst nauðsynlegt að takmarka umferð ferðamanna á einhvern hátt þar sem sem slíkar aðstæður eru fyrir hendi eins og til dæmis í Surtsey. Surtsey er gríðarlega mikilvæg fyrir vísindin því á síðari árum hafa vísindamenn ekki fengið annað eins tækifæri til þess að fylgjast með náttúruöflunum, t.d. myndun móbergs og flutningi tegunda lífvera til einangraðra svæða. Það er nauðsynleg að spilla ekki slíkum tækifærum með óvarkárni og fljótfærni við stjórnun og ákvarðanatöku.

Við höfum tekið mið af þeirri stefnu sem Alþjóðlegu náttúruvernarsamtökin IUCN hafa mótað fyrir Sameinuðu þjóðirnar að flokka friðlýst svæði í fimm til sex meginflokka eftir markmiðum friðlýsingar sbr. friðlýsingaflokka náttúruvernarlaganna. Þessir flokkar gera ráð fyrir misjafnlega mikilli nýtingu, allt frá engri nýtingu yfir í sjálfbæra nýtingu auðlinda svæðanna svo sem beitar, veiði og aðra útivist. Það er stefna ráðuneytisins að í ríkara mæli verði við friðlýsingu nýrra svæða mörkuð skýrari stefna og markmið með friðlýsingu svæðanna og ég tel mikilvægt að saman fari náttúruvernd og sjálfbær nýting þegar þess er kostur.

Ágætu áheyrendur

Síðast liðið vor samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um Náttúruvernaráætlun sem gerir ráð fyrir því að á næstu fjórum árum verði friðlýst 14 ný svæði á landinu alls um 3,5 % af landinu. Áætlunin miðar að því að friðlýsa svæði sem mikilvæg eru fyrir ákveðnar tegundir fugla sem eru sjaldgæfar eða við Íslendingar berum sérstaka ábyrgð á, fjölda plöntutegunda sem eru í hættu og nokkur svæði sem mikilvæg eru vegna jarðfræði. Umhverfisstofnun ásamt umhverfisráðuneytinu og Náttúrufræðistofnun Íslands munu vinna að því að koma áætluninni til framkvæmda. Nokkur þessara svæða eru þekktir áfangastaðir ferðamanna eins og Vestmannaeyjar, Látrabjarg, Geysir og Reykjanestáin, en önnur eru minna þekkt. Samfara friðun þessara staða verður reynt að móta hugmyndir um ferðaþjónustu og hvernig markmið friðlýsinga og ferðaþjónusta geta farið saman frá upphafi. Þetta er nauðsynlegt ef við eigum að geta tekið á móti auknum straumi ferðamanna til landsins.

Í nýlegri úttekt sem kynnt hefur verið undanfarið og unnin hefur verið á vegum fræðimanna við Háskóla Íslands á áhrifum ferðamanna á nokkrum friðlýstum svæðum hefur komið í ljós að áhrif af völdum ferðamanna á göngustíga geta verið umtalsverð og þörf á að bregðast við með viðeigandi hætti. Sem betur fer er ekki um marga staði að ræða, en það er augljóst að mörg svæði eru ekki til þess fallin miðað við ástand þeirra í dag að taka við mikilli fjölgun ferðamanna en ég bind vonir við að sú áhersla sem ég hef lagt á náttúruverndina og uppbyggingu á friðlýstum svæðum, ekki síst í þjóðgörðunum þar sem umferðin er hvað mest, verði til að bæta úr þessu.

Ríkisstjórnin ákvað í vetur að unnið verði áfram að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og í samræmi við það er nú unnið að undirbúning málsins í umhverfisráðuneytinu. Þegar er búið er að stækka þjóðgarðinn í Skaftafelli inn á miðjan Vatnajökul og með því varð til stærsti þjóðgarður Evrópu. Í framtíðinni er stefnt að því að nyrðri hluti jökulsins verði einnig friðlýstur og þar með afar mikilvægt svæði með tilliti til eldsumbrota og samspil elds og íss við landmótun. Hugsanlega verður Vatnajökulsþjóðgarður og núverandi Skaftafellsþjóðgarður næsta svæðið sem tilnefnt verður á heimsminjaskrá UNESCO. Tillögur nefndar um friðlýsingu svæða fyrir norðan Vatnajökul eru einnig til skoðunar í ráðuneytinu og það er von okkar að þær hugmyndir geti orðið að veruleika á næstu árum. Þetta eru vissulega stór svæði og verulegur hluti landsins sem verið er að skoða, en þau eru jafnframt afar þýðingarmikil fyrir Ísland sem ferðamannaland.

Verði þessar hugmyndir að veruleika gæti ferðamannastraumur til landsins margfaldast umfram það sem núgildandi spár gera ráð fyrir. Áætlanir sem gerðar hafa verið sýna að þjóðgarður sem næði stranda á milli frá suðri til norðurs, gæti aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar um nokkra milljarða króna.

Góðir fundargestir

Sú umræða sem hér fer fram í dag um gildi friðlýstra svæða fyrir ferðamenn er að mínu mati afar mikilvæg. Miklu varðar að vel sé haldið á þessum málum og tekist á við þau af þekkingu svo að hér á landi verði hægt að byggja upp öfluga ferðaþjónustu í fullri sátt við náttúru landsins. Ég hlakka mikið til að heyra skoðanir þeirra ágætu sérfræðinga sem tala hér á eftir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum