Skýrsla nefndar um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi
Félagsmálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun skýrslu nefndar sem fékk það verkefni að útfæra tillögur að stefnumótun í aðlögunarmálum innflytjenda á Íslandi og skilgreina nánar þau verkefni sem brýnust væru. Verkefni nefndarinnar var enn fremur að fjalla um framtíðarskipulag á móttöku flóttamannahópa og starfsemi Flóttamannaráðs. Nefndin hefur nú skilað meðfylgjandi skýrslu og tillögum. Hún leggur til að hleypt verði af stokkunum tilraunaverkefni til fimm ára. Í því felst stofnun innflytjendaráðs og undirnefndar þess, sem ætlað er að sjá um móttöku flóttafólks. Í skýrslunni er að finna auk tillagnanna umræðu um aðlögun útlendinga á Íslandi, umfjöllun um stefnumótun stjórnvalda og verklag á Norðurlöndunum á þessu sviði.