Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurskoðuð þjóðhagsspá

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 5/2005

Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur gefið út nýja skýrslu ,,Úr þjóðarbúskapnum" sem hefur að geyma greinargerðir um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála á árunum 2005-2007 meðal annars á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins. Helstu breytingar frá haustspá ráðuneytisins eru útskýrðar. Auk þess eru birtir framreikningar til ársins 2010.

Helstu niðurstöður eru þessar:

  • Spáð er að hagvöxtur árin 2005 og 2006 verði talsvert ör eða nær 6% hvort ár. Þegar dregur úr stóriðjuframkvæmdum árið 2007 tekur að hægja á og meira jafnvægi kemst á þjóðarbúskapinn. Alþjóðavæðing og sveigjanleiki hagkerfisins ásamt aðhaldi í hagsstjórninni eru forsendur þess að stöðugleiki efnahagslífsins haldist á komandi árum.
  • Hagvöxtur árið 2004 varð 5,2%, sem er 0,6% minna en áætlað var í janúar. Fjárfestingar jukust minna en ráð var fyrir gert. Á móti er reiknað með meiri fjárfestingu og einkaneyslu í ár og að hagvöxtur verði 5,9% eða 0,4% meiri en í janúarspánni. Árið 2006 er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 5,7% sem er 1,0% meira en í janúarspánni vegna meiri framleiðslu einkaneyslu.
  • Hagvöxtur, sem nú byggist á miklum þjóðarútgjöldum, mun í auknum mæli myndast vegna minni halla í utanríkisviðskiptum. Stóriðjufjárfesting fellur að stærstum hluta til í ár en verður áfram mikil á næsta ári. Þá hefur hækkun á gengi krónunnar, aukið framboð ódýrari íbúðalána og ört hækkandi fasteignaverð frá því í haust leitt til meiri einkaneyslu og innflutnings. Óhjákvæmileg afleiðing er vaxandi viðskiptahalli sem spáð er að nái hámarki í ár eða um 12% af landsframleiðslu. Viðskiptahallinn verður einnig mikill á næsta ári en hann dregst hratt saman eftir það.
  • Aðhald í heildar hagstjórn er þegar orðið nokkurt og gert er ráð fyrir að það aukist meðan framkvæmdirnar ná hámarki. Dregið hefur úr atvinnuleysi og spáð er að það verði rúm 2% af vinnuafli árið 2006. Nokkurrar framleiðsluspennu verður því vart í hagkerfinu en hún mun minnka hratt í kjölfar mestu framkvæmdanna en þá mun atvinnuleysi aukast á ný. Vegna mikillar hækkunar fasteignaverðs er áætlað að vísitala neysluverðs hækki milli ára um 3,9% árið 2005. Spá um lækkun á gengi krónunnar árið 2006 er forsenda þess að verðbólga verði um 3,8% það ár en lækki svo eftir það.
  • Helstu óvissuþættir varða gengisþróun krónunnar og áform um aðrar stóriðjuframkvæmdir.

Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Þorgeirsson skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins í síma 545-9200.

Fjármálaráðuneytinu, 27. apríl 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum