Sveitarstjórnir skipa samstarfsnefndir um sameiningu
Sveitarstjórnir vítt og breitt um landið eru nú í óða önn að skipa fulltrúa sína í samstarfsnefnd sem skal undirbúa atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga í samræmi við tillögur sameiningarnefndar. Sameiningarnefnd hefur lagt til að kosið verði í 66 sveitarfélögum um 17 sameiningartillögur , en sem kunnugt er var tillaga um sameiningu sveitarfélaga í Borgarfirði og á Snæfellsnesi samþykkt í fjórum af fimm sveitarfélögum þann 23. apríl s.l. Íbúar Skorradalshrepps fá tækifæri til að kjósa aftur um sömu tillögu innan sex vikna. Hugsanlega munu einhverjir íbúanna endurskoða afstöðu sína vitandi vilja íbúa í nágrannasveitarfélögum.
Á nokkrum svæðum hafa allar viðkomandi sveitarstjórnir skipað fulltrúa og er undirbúningur að sameiningarkosningum að hefjast. Almennur kjördagur sameiningarkosninga er 8. október næstkomandi, en samstarfsnefndum er heimilt að ákveða að atkvæðagreiðsla fari fram fyrr, enda fái tillagan fullnægjandi kynningu meðal íbúa. Samstarfsnefndir þurfa að taka ákvörðun um kjördag og tilkynna félagsmálaráðuneytinu eigi síðar en 20. maí n.k.
Á vefsíðu verkefnisins má finna leiðbeiningarit fyrir samstarfsnefndir, svokallaðan Vegvísi, ásamt öðrum upplýsingum um verkefnið.
www.felagsmalaraduneyti.is/vefir/efling