Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fólkið, fákar, foldarskart

Ávarp umhverfisráðherra á

Málþingi Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs,

28. apríl 2005

Ágætu málþingsgestir,

Það er ánægjulegt að sjá hversu mikil gróska er í starfi samtakanna frá því fyrir átta árum að þau voru stofnuð. Í nýjasta fréttabréfi samtakanna er gott og myndrænt yfirlit yfir starfið, samstarf við grunnskóla höfuðborgarsvæðisins, vinnuskólann og hvernig garðaútgangur og tað er nýtt við uppgræðslustörf í landnámi Ingólfs. Mér finnst ánægjulegt að sjá hve vel starf samtakanna hefur gengið og hversu margir taka þátt í starfinu. Það er mikilvægt fyrir ungdóminn að fá tækifæri til þess að kynnast því hvernig hægt er að nýta úrgang eins og gras og tað til þess að bæta umhverfið og ástand gróðurs á þann hátt sem samtökin hafa gert. Þetta eru gamlar, gildar og þekktar aðferðir við uppgræðslu lands, aðferðir sem bændur hafa notað í gegnum aldirnar. Í fréttabréfi samtakanna var til að mynda vitnað til Njálu þar sem greint er frá því þegar Hallgerður spyr frétta af húskörlum Njáls og fær þær fréttir að einn þeirra æki skarni á hóla. Eftir að hafa fengið útskýringar á uppátækinu kvað Hallgerður við: „Misvitur er Njáll, þar er hann kann til hversvetna ráð." Hún gerði síðan grín að Njáli og taldi að hann ætti að beita þeim ráðum á skeggvöxt sinn þar eð hann var skegglaus.

Stærstur hluti þjóðarinnar býr nú í þéttbýli og hefur að jafnaði minni aðkomu og kynni af villtri náttúru landsins en þorri þjóðarinnar á fyrri tíð. Hrossaeign þéttbýlisbúa hefur jafnframt vaxið umtalsvert undanfarið svo að verulegt magn fellur til af hrossataði, grasi og öðrum garðaúrgangi. Álag á umhverfi höfuðborgarsvæðisins m.a. vegna aukinnar umferðar og útivistar hefur aukist um leið og dregið hefur úr álagi vegar sauðfjárbeitar. Sauðfjárbeit er að vísu enn að finna í landnámi Ingólfs en hún er komin inn á afgirt beitarhólf svo að uppgræðslustarfið fær að vera í friði og gróðurinn á þessu svæði ætti í heild sinni að ná að vaxa og dafna.

Mikilvægt er að við gerum okkur grein fyrir þörfinni á að viðhalda náttúru og gróðurfari landsins í sem bestu ásigkomulagi. Við höfum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að viðhalda og varðveita líffræðilegri fjölbreytni. Gróður og fjölbreytt gróðurfar er undirstaða þess að við getum viðhaldið fjölbreyttu dýralífi og því mikilvægur þáttur í því að uppfylla skuldbindingar okkar í þessu efni. Þar að auki er áríðandi að nota innlendar tegundir í landgræðslu og endurheimt landgæða.

Góðir áheyrendur.

Yfirskrift þessa málþings vakti strax athygli mína vegna skemmtilegrar vísunar í Hulduljóð Jónasar:

Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.

Fáir hafa ort fegurri ljóð um Ísland, gróður landsins og náttúru svo það var afar vel viðeigandi.

Að lokum vil ég þakka samtökunum fyrir gróskumikið starf og ítreka að Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs er mikilvægur vettvangur til þess að endurvekja hin gömlu gildi bændasamfélagsins í borgarsamfélaginu og stuðla að ræktun og umhyggju fyrir umhverfinu, ekki síst meðal yngstu kynslóðarinnar og arftökum landsins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta