Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á landsráðstefnu Staðardagskrár 21

Landsráðstefna um Staðardagskrá 21, Félagsheimili Kópavogs 29. apríl 2005

Ávarp umhverfisráðherra, Sigríðar Önnu Þórðardóttur

 

 

Ágætu ráðstefnugestir,

 

Söngvar til jarðarinnar

II

Bezt eru vorin, ekkert elska ég heitar.
Úr útlegð þyrpast syngjandi vötn
og litir sem mora í holtum og hlýjum drögum.
Þá verða dýrin að lifandi hluta landsins:
lambféð á gljúpu túni, ernir á heiðum
svanir á engi, hrafnar í blautum högum
hneggjandi stóð sem öslar mýrarsund
tekur á rás og þýtur, bylgjast í breiðum ...

Bezt eru vorin. Þau tylla sér niður um stund
í líki bjartar stúlku á skínandi ský
með skæri og nál og byrja hljóðlát að sauma
í hvíta dali ást sína og alla drauma.
Ofan af glampandi sólinni vinda þau bandið!
Og skortir liti, hengja þau beint frá himnum
hvelfingar regnboganna
rekja þau sundur rautt og blátt og grænt
raða því upp á nýtt og sauma í landið.

 

Þannig mælir skáldið Hannes Pétursson í ljóði sínu Söngvar til jarðarinnar.

Mér þótti viðeigandi á ráðstefnu um sjálfbæra þróun sem haldin er á svo dýrlegu vori að minna okkur á töfra íslenskrar náttúru.

Ég þakka fyrir að fá að vera með ykkur hér í dag. Á vettvangi Staðardagskrár 21 er unnið mjög mikilvægt starf við að koma hugsun sjálfbærrar þróunar inn í íslenskt samfélag og gefa almenningi kost á að hafa áhrif á gerð áætlana um framtíðarþróun í sínu nánasta umhverfi.

Á Ríó-ráðstefnunni árið 1992 var það samdóma álit manna að þröng umhverfisverndarstefna hefði náð takmörkuðum árangri og árangur næðist ekki nema með því að skapa skilning á því að vernd gæða jarðar og aukin velferð mannkyns verða að fara saman. Náttúruverndarstefna sem amast gegn framþróun og aukinni hagsæld mun ekki skila árangri, ekki frekar en sókn eftir hagvexti sem ekki tekur tillit til umhverfisins. Það er þessi hugsun sem hugtakinu „sjálfbær þróun" og samningnum frá Ríó er ætlað að koma til skila.

Á leiðtogafundinum í Jóhannesarborg árið 2002 staðfestu ríkisstjórnir þátttöku sína í sjálfbærri þróun og skilvirkri framkvæmd Dagskrár 21. Á fundinum kynntu sveitarfélög einnig mikilvægi Staðardagskrár 21 sem tækis til að byggja framtíðaráætlanir sínar á. Aðalumfjöllunarefni þessarar ráðstefnu er samspilið milli starfs ríkis og sveitarfélaga að sjálfbærri þróun.

Jafnframt því sem þetta samspil er skoðað er ástæða til að hvetja sveitarstjórnir til að skoða vandlega innbyrðis tengsl eigin áætlana heima í héraði. Eðlilegt er að aðrar áætlanir svo sem skólastefna og atvinnustefna taki mið af þeim línum sem lagðar eru í Staðardagskrá viðkomandi sveitarfélags. Með því móti nýtist Staðardagskráin sem það tæki til heildarstefnumótunar sem henni er ætlað að vera, þ.e.a.s. langtímáætlun sem tekur í senn tillit til vistfræðilegra, efnahagslegra og félagslegra þátta þar sem reynt er að sjá hlutina í hnattrænu samhengi um leið og ráðist er í framkvæmdir heima fyrir.

Árið 2002 samþykkti ríkisstjórn Íslands áætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi fram til ársins 2020. Áætlunin ber yfirskriftina "Velferð til framtíðar - Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi".

Í henni eru skilgreind helstu markmið stjórnvalda til að koma á sjálfbærri þróun og lýst er leiðum til að ná þeim markmiðum. Um þessar mundir fer fram endurskoðun á áætluninni og jafnframt er reynt að leggja mat á hvernig til hefur tekist fyrstu þrjú árin. Umhverfisþing 14.-15. október nk. mun meðal annars fjalla um endurskoðun áætlunarinnar.

Sú umræða sem fram fer hér í dag kemur því á góðum tíma því mikilvægt er að tekið sé mið af hugmyndum sveitarfélaganna við endurskoðun á stefnumörkun ríkisins um sjálfbæra þróun. Í því tilliti er áhugavert að velta fyrir sér hvernig áætlanir ríkisins og sveitarfélaganna um sjálfbæra þróun tengjast, eða hvort tengingum þarna á milli sé ef til vill áfátt.

Á sama hátt er að sjálfsögðu mikilvægt að stefnumörkun ríkisins sé í takt við þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist á alþjóðlegum vettvangi. Í því tilliti vil ég nefna sameiginlega áætlun Norðurlandanna um sjálfbæra þróun.

Nú er liðið hálft sjöunda ár síðan umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga gerðu með sér samning um að aðstoða íslensk sveitarfélög við að móta sér stefnu um Staðardagskrá 21. Samstarf Sambandsins og ráðuneytisins í þessum efnum hefur verið einkar farsælt og óhætt að fullyrða að mikill árangur hefur náðst.

Á þessum tíma hafa rúmlega 60 sveitarfélög komið að starfinu að Staðardagskrá 21 með einum eða öðrum hætti. Nú hafa 24 sveitarstjórnir samþykkt framkvæmdaáætlun um Staðardagskrá 21. Sérlega ánægjulegt hefur verið að fylgjast með því stefnumótunarstarfi sem unnið hefur verið undir merkjum Staðardagskrár 21 í nokkrum af fámennustu sveitarfélögum landsins á síðustu mánuðum.

Mótun framtíðarsýnar Íslendinga í anda sjálfbærrar þróunar er krefjandi og jafnframt heillandi verkefni. Því verða ekki gerð skil í stefnumörkun í eitt skipti fyrir öll heldur er það lifandi verkefni sem stöðugt verður að taka mið af breyttum aðstæðum og viðhorfum og er í raun verkefni alls samfélagsins.

Mikilvægt er að halda áfram því góða verki sem hafið er í mörgum sveitarfélögum og fá þau með sem komin eru skemmra á veg. Til að svo megi verða er, að mati umhverfisráðuneytisins, brýnt að halda samstarfinu við sveitarfélögin áfram. Þegar litið er á stefnumótun Sambands íslenskra sveitarfélaga virðist það sama vera uppi á teningnum, en þar kemur meðal annars fram það markmið að "Staðardagskrá 21 verði grunntónn í starfsemi sveitarfélaganna".

Um leið og ég vil þakka Stefáni Gíslasyni verkefnisstjóra Staðardagskrár 21 og hans öfluga starfsfólki í Borgarnesi fyrir vel unnin störf í þágu verkefnisins er það ósk mín að þessi ráðstefna verði árangursrík og jafnframt hvatning til okkar allra um að leggja okkar af mörkum til að þróun samfélagsins verði sjálfbær.

Ég óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar hér í dag og lýk máli mínu með því að vitna á ný í kvæði Hannesar Péturssonar

 

Söngvar til jarðarinnar

III

Morgnar við sjóinn í maí:
mjólkurhvítt logn um fjörðinn
ritan að rápa um grjótið
það rýkur frá einstaka bæ.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta