Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra á ráðstefnu um akstur utan vega

Góðir ráðstefnugestir,

Frummælendur hafa þegar rakið þau vandamál sem við okkur blasa þegar fjallað er um akstur um landið og hvað teljist löglegur og hvað ólöglegur akstur eða akstur utan vega. Þetta er vissulega vandamál og mikilvægt er að eyða óvissu um það hvað telst vera vegur í skilningi laga um náttúruvernd þannig að almenningur í landinu og erlendir ferðamenn geti með vissu ferðast um landið á löglegan máta án þess að vera sakaðir um ólögmætan akstur utan vega. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að vegakerfið og þar með vegir á hálendinu séu merktir inn á kort sem almenningur hefur aðgang að og getur treyst. Merking slóða sem óheimilt er að aka inn á kort er eingöngu til þess fallin að leiða ferðamenn út í óvissu og hugsanlega lögbrot. Það skiptir því mestu máli til þess að draga úr ólögmætum akstri að til sé vegakort sem sýni vegi á hálendinu sem opnir eru fyrir umferð.

Með skipun starfshópsins síðastliðið haust var ætlunin að fá fram tillögur um vegakerfið á hálendinu til þess að eyða óvissu um það hvar mætti aka á hálendinu. Hópurinn skilaði tillögum um það hvernig haga megi vinnutilhögun við þetta næstu tvö árin og hvað þurfi að gera, ásamt tillögum um vegi í tveimur sveitarfélögum af 10 sem ná inn á hálendið. Þessi vinna starfshópsins mun koma að notum í framhaldinu en næstu skref tel ég vera að nýta þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir. Við höfum þegar GPS-staðsetningu á 90-95% vega og slóða á hálendinu sem að mati ráðuneytisins dekkar um 99% af þeim vegum og slóðum sem eðlilegt er að séu opnir fyrir almennri umferð og geti talist vegakerfi hálendisins. Það er því brýnast að mati ráðuneytisins að þessir þekktu slóðar séu skoðaðir og metið hvort þeir eigi að vera lokaðir eða opnir fyrir umferð og þá hluti af vegakerfinu.

Ég hef því ákveðið að fela Umhverfisstofnun að koma með tillögur, á grundvelli korta frá Landmælingum Íslands, um það hvaða vegir og slóðar teljist til vega í skilningi náttúruverndarlaganna. Tillögur stofnunarinnar verða bornar undir viðkomandi sveitarfélög með ósk um athugasemdir og ábendingar við þær. Á grundvelli þess verður síðan ákveðið hvaða vegir og slóðar teljist örugglega vegir í skilningi laga um náttúruvernd. Niðurstaðan verður síðan færð inn á kort sem aðgengilegt verður almenningi. Ég legg áherslu á að þessari vinnu verði hraðað þannig að við getum gengið frá þessu sem fyrst.

Með þessu vill ráðuneytið draga úr óvissu ferðamanna um það hvar megi aka. Þetta svarar hins vegar ekki spurningunni um það hvort aka megi einhvers staðar annars staðar eða ekki. Það er öllum ljóst, ekki síst okkur í umhverfisráðuneytinu, að þetta er enginn endapunktur, það verður að halda áfram með þessa vinnu í kjölfarið til þess að taka af allan vafa um aðra slóða. Það er einnig ljóst að inni á slíku korti verða ekki vegslóðar sem þjóna eingöngu sérstökum verkefnum eða árstíðabundinni landnýtingu eins og smölun eða viðhaldi mannvirkja.

Ég tel rétt að benda á að ásigkomulag veganna getur verið mismunandi og því hæfi þeir líklega ekki öllum tegundum bifreiða, jafnvel ekki öllum jeppum. Það þarf því að flokka vegina í 2-4 flokka eftir ástandi og mikilvægt er að ljóst sé að vegur er afmarkaður og að fari ökumenn út fyrir veg til að komast hjá pytti gæti slíkt talist akstur utan vega.

Á næstunni mun ég taka það upp við samgönguráðherra að vegagerðin merki innkomuleiðir á hálendið og að þar verði veittar upplýsingar vegakerfið og eðli þess og ástand. Einnig mun ég benda á nauðsyn þess að vegagerðin merki þá vegi á hálendinu með skiltum sem heimilt verður að aka til þess að draga úr hættunni á að ferðamenn villist inn á slóða sem teljast ekki hluti af vegakerfi hálendisins. Þetta er mjög mikilvægt þar sem á sumum svæðum getur verið erfitt að gera greinamun á vegi og slóða og meta hvað sé réttur vegur.

Starfshópurinn bendir á að þörf sé á að endurskoða reglugerðina um akstur utan vega. Þessi endurskoðun er þegar í gangi og nýverið var tillaga að nýrri reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru landsins kynnt fyrir frjálsum félagasamtökum og send út til umsagnar. Í reglugerðinni verður fjallað um akstur vélknúinna ökutækja, akstur utan vega, umferð ríðandi manna og umferð á reiðhjólum. Bent hefur verið á nauðsyn þess að fjalla sérstaklega um akstur á vélhjólum og er það til skoðunar. Það er mikilvægt að mismunandi ferðamáta og útivistaráhuga sé sýndur skilningur og að sátt ríki milli þeirra sem útivist og ferðalög stunda. Það getur samt verið þörf á að takmarka útivist á ákveðnum svæðum við ákveðna tegund útivistar af ýmsum ástæðum, m.a. vegna landfræðilegra aðstæðna eða til varðveislu víðernis. Ráðuneytið leggur áherslu á að gefa út þessa reglugerð nú fyrir sumarið.

Undanfarið hefur borið töluvert á því að akstur á svokölluðum torfærumótorhjólum valdi skemmdum á landi, bæði hér á láglendi og uppi á hálendinu. Starfshópurinn bendir á að skráningu slíkra hjóla sé ábóta vant og að bæta þurfi þar úr og að spjöll af völdum þeirra séu hlutfallslega mikil. Náttúra landsins er ekki leikvöllur fyrir þessi torfærutæki, þau eiga heima á vegum eða á sér útbúnum leiksvæðum þar sem ekki er verið að spilla náttúru landsins, en ekki utan vega.

Það er ljóst að ákvæði laganna eru alls ekki nógu skýr hvað akstur í óbyggðum varðar. Ráðuneytið mun því í sumar og haust huga að því hvernig gera megi lögin skýrari og hvort þörf sé á breytingu annarra laga og reglugerða, hugsanlega skipulagsreglugerða eins og starfshópurinn leggur til. Þegar Alþingi kemur saman verður síðan lagt fram frumvarp til þess að styrkja ákvæði náttúruverndarlaganna um akstur í óbyggðum.

Það verður hins vegar að hafa í huga að mikilvægast er að efla kynningu og fræðslu um akstur og umgengni við náttúru landsins og þær skemmdir og lýti á landinu sem akstur utan vega veldur. Ég er sannfærð um að allir vilja ganga vel um náttúruna og hálendi Íslands og þess vegna eru réttar upplýsingar til almennings um akstur á hálendinu að mínu áliti árangursríkastar til að vinna gegn utanvegaakstri. Búi fólk yfir réttum upplýsingum um það hvar óhætt er að aka og hvaða skaða utanvegaakstur veldur, er ég ekki í vafa um að það mun reyna að fylgja slíkum leiðbeiningum. Sú kynning sem Umhverfisstofnun, Samtök ferðaþjónustunnar o.fl. eru að hrinda af stað er góð byrjun. Þá vil ég nefna að umhverfisráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á að birta auglýsingar gegn akstri utan vega í ritum sem beint er að ferðamönnum, ekki síst erlendum ferðamönnum. Ég vil að lokum árétta að við þurfum að vera stöðugt á verði og minna aftur og aftur á nauðsyn þess að vernda umhverfið og sýna náttúrunni virðingu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum