Hoppa yfir valmynd
2. maí 2005 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur G-10 í París 02. - 03. maí 2005

Í dag hélt hópur aðildarríkja* Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) ráðherrafund í París um stöðu mála í yfirstandandi samningaviðræðum stofnunarinnar hvað varðar landbúnaðarmál. Átti fundurinn sér stað í tengslum við ráðherrafund OECD, sem hefst á morgun. Þessi ríkjahópur gengur undir nafninu G10 og hefur átt náið samstarf í viðræðunum frá upphafi þeirra árið 2001. Hefur hann einkum lagt áherslu á að tryggja viðunandi sveigjanleika í reglum hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis svo landbúnaður aðildarríkjanna, sem m.a. býr við mjög ólík framleiðsluskilyrði, geti farsællega aðlagast þeim breytingum í frjálsræðisátt sem um kann að semjast í yfirstandandi samningalotu. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, fór fyrir sendinefnd Íslands á fundinum, en hann situr jafnframt ráðherrafund OECD.

G10 ríkjahópurinn stefnir að því að halda áfram umbótum í landbúnaði og skapa réttlátar reglur í alþjóðaviðskiptum með landbúnaðarvörur en hann leggur jafnframt áherslu á að breytingar í átt að auknu frjálsræði fari fram með þeim hætti að komið verði eftir bestu getu í veg fyrir neikvæð áhrif þeirra. Einkum leggur hópurinn áherslu á að í umbótaferlinu verði tekið tillit til ýmissa þátta sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, s.s. fæðuöryggis, matvælaöryggis, neytendamála, byggðasjónarmiða og umhverfismála.

Stefnt hefur verið að því í viðræðum WTO að ná samkomulagi um öll tæknileg atriði fyrir lok þessa árs og er nú unnið að fyrsta áfanga þess samkomulags fyrir lok júlímánaðar. Þótti G10 ríkjahópnum því tímabært að boða til ráðherrafundar nú til að árétta áherslur sínar í viðræðunum.

Hjálagt sendist fréttatilkynning frá ráðherrafundi G10, sem dreift var á fréttamannafundi við lok hans: Smella her

*Ísland, Ísrael, Japan, Suður Kórea, Liechtenstein, Máritíus, Noregur, Sviss og Taívan.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta