Hoppa yfir valmynd
2. maí 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Rafræn innritun nýnema í framhaldsskóla skólaárið 2005-2006

Rafræn innritun nýnema í framhaldsskóla skólaárið 2005-2006 fer fram á menntagatt.is.

Aðsókn að framhaldsskólum landsins hefur verið að aukast jafnt og þétt og samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hófu 93% 16 ára unglinga nám í framhaldsskólum sl. haust og hefur það hlutfall aldrei verið hærra.

Menntamálaráðuneytið hefur undanfarin misseri unnið að breytingum á innritun í framhaldsskóla og hefur ráðuneytið nú ákveðið að taka upp rafræna innritun. Nemendur sem ljúka 10. bekk grunnskóla nú í vor munu sækja um á netinu. Þeir verða því þeir fyrstu sem þannig innritast í framhaldsskóla. Aðrir umsækjendur sækja um á eyðublaði sem sent er útfyllt til viðkomandi skóla ásamt afritum af einkunnum úr fyrra námi.

Rafræn innritun auðveldar yfirsýn yfir eftirspurn nemenda eftir skólum og námsbrautum. Fyrr verður ljóst hverjar óskir nemenda eru og því auðveldara að bregðst við þeim. Þjónusta við nemendur á því að verða betri. Talsverður vinnusparnaður fylgir rafrænni innritun og hún getur verið pappírslaus að mestu leyti.

Tíminn sem nemendur fá til að ganga frá umsóknum lengist og nýir möguleikar opnast til að tengja innritunina námsráðgjöf og öðrum þáttum skólastarfsins í grunnskólunum í samvinnu við framhaldsskólana. Forráðamenn nemenda í 10. bekk munu fá bréf frá ráðuneytinu fyrri hluta maímánaðar þar sem fyrirkomulag innritunarinnar verður kynnt nánar. Aðkoma foreldra/forráðamanna ólögráða unglinga er skilyrði fyrir skráningu þeirra til náms í framhaldsskóla.

Nemendur 10. bekkjar fá lykilorð sem veitir þeim persónulegan aðgang að innritun á netinu ásamt leiðbeiningum um hvernig sækja skal um. Þeir geta nýtt tölvukost grunnskóla eða framhaldsskóla til að sækja um eða innritað sig hvar sem þeir hafa aðgang að netinu. Umsækjendur fylla út rafrænt umsóknareyðublað og velja sér framhaldsskóla, skóla til vara, námsbraut og aðra þjónustu sem í boði er í einstökum skólum. Skólaeinkunnir 10. bekkinga svo og einkunnir þeirra á samræmdum prófum verða fluttar rafrænt með umsóknum til viðkomandi framhaldsskóla.

Innritunin fer fram um upplýsingakerfi framhaldsskólanna og Skýrr hf. mun sjá um að bæta innritunarkerfinu við það. Mentor ehf mun annast rafrænan flutning einkunna frá grunnskólum.

Umsóknarkerfið verður opnað um miðjan maí og verður opið til 14. júní. Á þeim tíma geta umsækjendur hvenær sem er unnið með umsóknir sínar og breytt vali á skóla og námsbraut. Á miðnætti þann 14. júní lýkur umsóknarfresti og skólarnir hefja úrvinnslu umsókna. Geti skóli ekki orðið við umsókn verður hún send í skóla sem nemandi valdi til vara. Þegar allar umsóknir hafa verið afgreiddar fá nemendur bréf með tilboði um skólavist. Nemendur þurfa að staðfesta veitta skólavist með greiðslu innritunargjalds.

Það er mat menntamálaráðuneytis að með þessu sé stigið stórt skref í þá átt að gera alla innritun í framhaldsskóla á Íslandi rafræna til hagsbóta fyrir bæði umsækjendur og skólana.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta