Fundur sjávarútvegsráðherra 17 ríkja í St. John's, Kanada
Fréttatilkynning
frá sjávarútvegsráðuneytinu
Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra tók þátt í fundi sjávarútvegsráðherra sautján ríkja sem fram fór í St. John’s í Kanada dagana 1. og 2. maí síðastliðinn. Á fundinum samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu varðandi úthafsveiðar þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að bæta stjórn þeirra. Samstaða var um að nauðsynlegur lagalegur rammi um úthafsveiðar væri nú þegar til staðar og lýstu ráðherrarnir vilja sínum til að tryggja framkvæmd þeirra samninga og aðgerðaáætlana sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Ráðherrarnir voru sammála um að svæðisbundnar fiskveiðistofnanir gegni mikilvægu hlutverki við stjórn úthafsveiða og að nauðsyn beri til að efla þær enn frekar og laga þær að breyttu umhverfi. Í þessu samhengi sé m.a. nauðsynlegt að gera þeim kleift að takast á við ný verkefni sem snúa að vistkerfisnálgun og baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum.
Fundur ráðherranna markaði upphaf ráðstefnu um stjórn úthafsveiða og úthafsveiðisamning Sameinuðu þjóðanna sem ber yfirskriftina frá orðum til aðgerða. Ráðstefnunni er ætlað að útfæra nánar einstaka þætti yfirlýsingarinnar og leita leiða til að hrinda þeim í framkvæmd. Ráðstefnunni lýkur fimmtudaginn 5. maí næstkomandi.
Yfirlýsingu ráðherrafundarins og ítarlegri upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast á vefslóðinni www.fisheriesgovernanceconference.gc.ca
Sjávarútvegsráðuneytið 4. maí, 2005