Hoppa yfir valmynd
6. maí 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vígsla á nýju húsnæði umhverfisráðuneytisins

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra afhendir Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfsiráðherra lykilinn að ráðuneytinu
Vígsla húsnæðis umhverfisráðuneytisins

Vígsla á nýju húsnæði umhverfisráðuneytisins Skuggasundi 1,

4. maí 2005

Ávarp Magnúsar Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra

Forsætisráðherra, umhverfisráðherra, fyrrverandi umhverfisráðherrar og aðrir góðir gestir,

Ég býð ykkur öll velkomin í umhverfisráðuneytið til þessarar hátíðlegu athafnar er við með formlegum hætti tökum í gagnið nýtt húsnæði okkar hér að Skuggasundi 1. Umhverfisráðuneytið, yngsta ráðuneytið í Stjórnarráði Íslands varð fimmtán ára fyrr á þessu ári og er því nú kröftugur táningur og til alls líklegt. Þetta nýja húsnæði er þriðja húsnæðið sem ráðuneytið situr í, en það hóf starfsemi sína á fjórðu hæð Sambandshússins við Sölvhólsgötu á þeim stað sem nú eru til húsa rekstrarfélag stjórnarráðsbygginga og tölvudeild stjórnarráðsins. Á árinu 1992 fluttist starfsemin að Vonarstræti 4, þar sem hún var til húsa þar til við fluttum hingað hinn 1. nóvember s.l.

Húsið og umhverfi þess á sér merka sögu sem mig langar til að rekja hér fáeinum orðum.

Skuggasund og Skuggahverfi eru nefnd eftir tómthúsbýlinu Skugga sem reist var 1802 - 1803 í landi hins forna Arnarhólsbýlis og mun það hafa verið fyrsta býlið sem reist var á þessum slóðum. Var hverfið upphaflega óskipulagt hverfi tómthúsbýla sem risu meðfram ströndinni austan núverandi Ingólfsstrætis og allt inn að Vitastíg og norðan núverandi Laugavegar. Á 19. öld var Skuggahverfið talið helsta fátækrahverfi Reykjavíkur og bjó þar fátækt alþýðufólk.

Halldór Ásgrímsson, Vilhjálmur Egilsson, Séra Jón Þorsteinsson og Magnús JóhannessonEftir aldamótin 1900 þegar fjölgaði hratt í Reykjavík, breyttist Skuggahverfi í stórt timburhúsahverfi, götur mynduðust og var Lindargata fyrsta gatan sem lögð var þar og var Lindargata fjórða fjölmennasta gatan í Reykjavík árið 1910. Lindargata dregur nafn sitt af Móakotslind sem var helsta vatnsból í Skuggahverfi. Eftir að taugaveikisfaraldur sem upp kom í hverfinu var rakinn til vatnsbólsins, var því lokað. Kotið Lindarbær dró einnig nafn sitt af Móakotslindinni en hann stóð rétt austan við það sem nú er Vatnsstígur. Um og eftir aldamótin 1900 hófust ýmsir atvinnurekendur, einkum útgerðarmenn, handa við bryggjusmíði í Skuggahverfi, m.a. undan Klapparstíg, Vitastíg og Lindargötu 45 sem þá hét Bakkabúð. Á Móakotslóð, sem nú er Skúlagata 16, risu höfðustöðvar Kveldúlfs, þá stærsta togarafélags landsins, og í nágrenninu höfðu risið nýtískulegar byggingar með skrifstofum, pakkhúsum, fiskþvotta- og fiskþurrkunarhúsum og miklum fiskireitum.

Snemma á 20. öldinni varð Skuggahverfið eitt helsta iðnaðarhverfi bæjarins og meðal þeirra fyrirtækja sem hófu starfsemi sína þar voru Brjóstsykursverksmiðjan Nói, Smjörlíkisgerðin Smári, Gosdrykkjaverksmiðjan Sanitas, sem hafði aðsetur hér að Lindargötu 9, Prentsmiðjan Edda, Kexverksmiðjan Frón og Súkkulaðiverksmiðjan Siríus svo fáein fyrirtæki séu nefnd. Efnagerðin Valur og Gunnars Majones hófu einnig starfsemi sína að Lindargötu 9.

Ekki liggur fyrir byggingarár hússins að Lindargötu 9 sem nú myndar kjarnann í húsnæði umhverfsráðuneytisins að Skuggasundi 1 en heimildir bera að Gosdrykkjaverksmiðjan Sanitas hafi flutt í nýtt húsnæði sitt hér árið 1927. Elstu teikningar sem til eru af húsinu eru frá árinu 1938, frá Guðmundi H. Þorlákssyni, húsameistara, en þær sýna viðbyggingu við vesturgafl hússins. Þar er nú afgreiðsla umhverfisráðuneytisins. Árið 1942 er byggt ofan á húsið þrjár hæðir og rishæð, eftir teikningum Guðmundar H. Þorlákssonar. Þá er Sanitas á neðstu hæðinni, skrifstofur á annarri hæðinni og íbúðarhúsnæði á efri hæðum. Árið 1964 kaupa Halldór Árnason, Þorsteinn Geirsson, Óðinn Helgi Jónsson og Níels EinarssonVerkamannafélagið Dagsbrún og Sjómannafélag Reykjavíkur húsið og breyta því í félagsheimili og skrifstofur eftir teikningum Sigvalda Thordarson arkitekts. Þá var byggður samkomusalur meðfram norðurhlið þess, sem fékk nafnið Lindarbær, og gosdrykkjaverksmiðjunni breytt í tilheyrandi fylgirými salarins svo sem anddyri, fatahengi, snyrtingar og eldhús. Inngangur í Lindarbæ var frá Skuggasundi. Þá var rishæð hússins rifin og í stað hennar byggð inndregin hæð fyrir fundarsal og bókasafn. Auk þess voru gerðar miklar breytingar á húsinu. Ber húsið stíl Sigvalda Thordarson gott vitni, en litir hússins eru einkennislitir Sigvalda, svokallaðir Sigvaldalitir, það er hvítt, gult og blátt.

Sjávarútvegsráðuneytið leigði hér og var með starfsemi í húsinu frá árinu 1971 - 1988 og Einkaleyfastofa og hluti Hagstofunnar leigðu hér einnig um tíma. Árið 1996 keypti ríkissjóður húsið. Ári síðar var því lítillega breytt og lyfta sett í húsið auk þess sem þriðja, fjórða og hluti annarar hæðar voru endurgerðar. Síðan hafa ýmsar ríkisstofnanir verið hér með aðstöðu, t.d. Einkaleyfastofa, hlutafélagaskrá Hagstofunnar, Kjaranefnd og efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins.

Frá sjöunda áratugnum hafði Þjóðleikhúsið afnot af Lindarbæ og ýmsir leikhópar fengu þar inni með sýningar sínar. Þegar Leiklistarskóli Íslands tók til starfa um miðjan áttunda áratuginn fékk Nemendaleikhús skólans aðstöðu í Lindarbæ og sýndu útskriftarnemendur skólans 3-4 verk í salnum á hverjum vetri. Í Lindarbæ hafa því margir af helstu leikurum þjóðarinnar birst almenningi á sviði í fyrsta sinn eða frá því að Leiklistarskóli Íslands hóf að útskrifa leikara árið 1976. Áður en Nemendaleikhúsið fékk afnot af salnum hafði hann verið þekktur samkomustaður fyrir dansleiki, leiksýningar, jólatrésskemmtanir og annað samkomuhald Reykvíkinga. Má því segja að salurinn sé órjúfanlegur hluti af leiklistar- og menningarsögu þjóðarinnar.

Í endurgerð hússins að þessu sinni voru 1. og 5. hæð endurinnréttaðar en litlu breytt á 2., 3. og 4. hæð. Gerðar voru endurbætur utanhúss og byggt nýtt anddyri við Skuggasund og er þar nú aðalinngangur í húsið og því er húsið kennt við Skuggasund 1. Endurbótum á hluta Lindarbæjar sem verður fundarsalur ráðuneytisins, var frestað um sinn en við væntum þess að lokið verði við þær lagfæringar á árinu 2006.

Lára Kristín Traustadóttir, Hrafn Hallgrímsson og Þórunn Elfa Sæmundsdóttir starfsmenn ráðuneytisins í afgreiðslunniFjölmargir aðilar komu nú að endurgerð hússins. Forsætisráðuneytið var verkkaupi og hafði yfirumsjón með framkvæmdinni. Undirbúningur, verkstjórn, útboð og eftirlit var í höndum Framkvæmdasýslu ríkisins. Hönnun verksins var undir stjórn Teiknistofu Albínu Thordarson og aðalverktaki var Byggó ehf. Verkið hófst í mars 2004 og flutti ráðuneytið í húsnæðið hinn 1. nóvember s.l. eins og áður hefur komið fram. Ný húsgögn og húsbúnaður eru frá Pennanum. Kostnaður við verkið allt var ekki hár og mjög nærri upphaflegri kostnaðaráætlun. Rekstrarfélag Stjórnarráðsins fer með umsjón með húseigninni, eins og öðrum fasteignum ríkisins hér á stjórnarráðsreitnum, hefur.

Ágætu gestir,

eins og þið heyrið þá á þetta nýja húsnæði umhverfisráðuneytisins mikla og merka sögu bæði í atvinnulegu og menningarlegu tilliti. Hér var lagður grunnur að mesta fjármálaveldi Íslandssögunnar þegar Sanitas hóf hér sína starfsemi sem síðar fluttist til Akureyrar og þaðan til borgar Sankti Péturs í Rússlandi. Hér hlaut forsætisráðherra sína fyrstu eldskírn í stjórnarráðinu, þegar hann stýrði sjávarúrvegsráðuneytinu á níunda áratug síðustu aldar og svo mætti áfram telja. Við starfsfólk umhverfisráðuneytisins erum ríkisstjórninni afar þakklát fyrir að hafa búið svo vel að starfseminni og raun ber vitni og þið getið öll sé með ykkar eigin augum hér á eftir. Vænti ég þess að við getum við þessar góðu aðstæður þjónað umhverfisráðherra og ríkisstjórn enn betur við hin margvíslegu verkefni á sviði umhverfismála. Það er mér því sérstakur heiður að gefa nú forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni orðið, en það er einnig einstök ánægja þar sem hann er jafnframt fyrrverandi umhverfisráðherra og sýnir það vel að það er ágætur undirbúningur fyrir starf forsætisráðherra að verða fyrst umhverfisráðherra.

Gjörðu svo vel forsætisráðherra.



Halldór Ásgrímsson, Vilhjálmur Egilsson, Séra Jón Þorsteinsson og Magnús Jóhannesson
Halldór Ásgrímsson, Vilhjálmur Egilsson, Séra Jón Þorsteinsson og Magnús Jóhannesson
Lára Kristín Traustadóttir, Hrafn Hallgrímsson og Þórunn Elfa Sæmundsdóttir starfsmenn ráðuneytisins í afgreiðslunni
Lára Kristín Traustadóttir, Hrafn Hallgrímsson og Þórunn Elfa Sæmundsdóttir starfsmenn ráðuneytisins í afgreiðslunni
Halldór Árnason, Þorsteinn Geirsson, Óðinn Helgi Jónsson og Níels Einarsson
Halldór Árnason, Þorsteinn Geirsson, Óðinn Helgi Jónsson og Níels Einarsson

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum