Efling löggæslu á Norður- og Austurlandi
Fréttatilkynning
Nr.:19/2005
Fyrir rúmu ári var samþykkt í ríkisstjórn tillaga Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra um eflingu sérsveitar lögreglunnar. Að mati ríkislögreglustjóra hefur reynslan sýnt, að með skipulagsbreytingum, stækkun sérsveitar og fjölgun lögreglumanna í Reykjavík hafi verið stigið framfaraspor til að tryggja öryggi borgaranna og efla lögregluna í heild sinni. Í því felist mikill styrkur fyrir lögreglu að hafa yfir að ráða öflugri samþjálfaðri sveit lögreglumanna, sem geti með stuttum fyrirvara tekist á við erfið verkefni hvar sem er á landinu. Sérstaklega felist í þessu styrking fyrir lögregluliðin á suð-vestur horni landsins.
Í ljósi þess að þau markmið sem að var stefnt með eflingu sérsveitarinnar hafa náðst er áfram unnið að því að þróa starf hennar í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar frá síðasta ári.
Dóms- og kirkjumálaráðherra fór til Akureyrar hinn 2. maí og sat þar fundi með sýslumanni, yfirstjórn lögreglu og lögreglumönnum. Á fundunum var rætt almennt um löggæslumál, en eins og kunnugt er hafa Akureyringar látið í ljós áhyggjur vegna vaxandi hörku í afbrotum í heimabæ sínum. Þá var einnig fjallað um nauðsynlegan viðbúnað á norðaustur hluta landsins í tilefni af stórvirkjunum og stóriðjuframkvæmdum.
Ráðherra kynnti, að hann mundi kanna, hvort gera ætti sambærilegar breytingar á skipulagi sérsveitar lögreglunnar á Akureyri, og reynst hafa vel á höfuðborgarsvæðinu, það er að fjórir sérsveitarmenn, sem starfa í dag hjá lögreglunni á Akureyri og ganga þar vaktir, myndu starfa án vaktaskyldu og aðrir menn yrðu ráðnir til almennra löggæslustarfa í þeirra stað. Dómsmálaráðherra hefur nú í samvinnu við ríkislögreglustjóra og sýslumanninn á Akureyri skýrt frá því í ríkisstjórn, að þetta skref verði stigið.
Lögreglumönnum á Akureyri verður fjölgað um fjóra, en fjórir sérsveitarmenn í lögregluliðinu þar verða leystir undan föstum vöktum. Sérsveitarmennirnir munu sinna almennri löggæslu og sérstökum löggæsluverkefnum á Norður- og Austurlandi. Þeir verða starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra, en verða eftir sem áður með aðsetur á Akureyri og undir daglegri stjórn sýslumannsins þar. Athafnasvæði þeirra er hins vegar ekki bundið við umdæmi sýslumannsins heldur eiga sérsveitarmennirnir að sinna verkefnum, þar sem helst er talin nauðsyn hverju sinni. Er þar m.a. horft til verkefna í tengslum við stórframkvæmdir á Austurlandi, aðgerðir gegn fíkniefnasölum og handrukkurum á Norður- og Austurlandi og annarri skipulagðri glæpastarfsemi, svo og til almennrar löggæslu að öðru leyti.
Að mati dóms- og kirkjumálaráðuneytis, ríkislögreglustjóra og sýslumannsins á Akureyri eflir þessi breyting mjög löggæslu á Norður- og Austurlandi. Fjölgun lögreglumanna á Akureyri leiðir einnig til þess, að þar verður unnt að þjálfa lögreglumenn til starfa á fjarskiptamiðstöð lögreglunnar, en varastöð fyrir fjarskiptamiðstöðina, almannavarnir og Neyðarlínuna var tekin í notkun í lögreglustöðinni á Akureyri fyrir stuttu.
Heildarkostnaður við þessar skipulagsbreytingar nemur um 15 m.kr. á þessu ári og eru þegar fyrir hendi fjárheimildir vegna þeirra. Gert er ráð fyrir að reynslan af þessum breytingum verði metin eftir eitt ár og síðan tekin ákvörðun um framhaldið.
Reykjavík 10. maí 2005