Hoppa yfir valmynd
10. maí 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Námsgagnastofnun leggur UNESCO-verkefni til 15 kennsluforrit

Forritin verða þýdd á nokkur tungumál s.s. arabísku, ensku, frönsku og swahili, í samstarfi Námsgagnastofnunar og UNESCO.

Sérkennsluverkefni á vegum UNESCO fær 15 kennsluforrit ókeypis frá Námsgagnastofnun. Þetta eru kennsluforrit sem þróuð hafa verið fyrir íslenska nemendur til að stuðla að einstaklingsmiðuðu námi. Höfundar, hönnuðir og aðrir þeir sem unnið hafa að gerð forritanna hafa samþykkt að fella niður greiðslur sem þeir eiga rétt á.

Forritin verða þýdd á nokkur tungumál s.s. arabísku, ensku, frönsku og swahili, í samstarfi Námsgagnastofnunar og UNESCO. Tveir starfsmenn UNESCO dveljast á Íslandi í 10 daga í maí til að fylgjast með verkefninu og aðstoða við þýðingar.

Á síðastliðnum árum hefur tölvum fjölgað í skólum í Afríku og ýmsum arabískumælandi löndum fyrir tilstuðlan ýmissa átaksverkefna, en þær nýtast ekki sem skyldi í kennslu þar sem skólarnir hafa ekki ráð á að kaupa kennsluforrit. Verkefni UNESCO, sem nefnist „Ný tækifæri fyrir börn og ungmenni með sérþarfir", vinnur að því að auka aðgengi að kennsluforritum. Kennsluforritin 15 frá Námsgagnastofnun verða þýdd á fyrrgreind tungumál og sett á geisladisk ásamt kennsluleiðbeiningum og verður þeim dreift ókeypis til skóla frá janúar 2006. Stefnt er að því að kynna geisladiskinn á alþjóðlegum leiðtogafundi sem haldinn verður í Túnis í nóvember nk.

Menntamálaráðuneytið fagnar þessu góða framlagi Námsgagnastofnunar til þróunarsamvinnu. Vonandi verður framhald á samstarfi Námsgagnastofnunar og UNESCO á sviði kennslumála. Þetta verkefni er sprottið upp úr áralöngu samstarfi Norðurlandanna á sviði kennsluforrita.

Þess má geta að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur sent tölvur m.a. til Kenýa.

Frekari upplýsingar um málið veitir Hildigunnur Halldórsdóttir hjá Námsgagnastofnun.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta