Forsætisráðherra í opinbera heimsókn til Noregs
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Sigurjóna Sigurðardóttir eiginkona hans verða í opinberri heimsókn í Noregi dagana 13. - 15. maí næstkomandi. Tilefni heimsóknarinnar er meðal annars að nú eru 100 ár frá því að Norðmenn öðluðust sjálfstæði og norska konungdæmið var endurreist og verða sérstök hátíðahöld af því tilefni þar í landi á næstunni.
Í heimsókninni mun forsætisráðherra eiga fundi með Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs en auk þess munu forsætisráðherrahjónin verða, ásamt norsku forsætisráðherrahjónunum, viðstödd opnun tónlistarhátíðarinnar í Harðangri, tónleika Dmitri og Vladimir Ashkenazy, ballettsýningu í Sima orkuverinu í Eiðisfirði, auk fjölda annarra menningarviðburða.
Þá mun forsætisráðherra jafnframt afhenda norsku þjóðinni gjöf frá Íslendingum í tilefni aldarafmælisins.
Í Reykjavík 12. maí 2005.