Samræmd stúdentspróf
Til skólameistara og skólanefnda framhaldsskóla
Samkvæmt reglugerð nr. 196/2003 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra stúdentsprófa er öllum nemendum er þreyta stúdentspróf skylt að ljúka samræmdu stúdentsprófi í a.m.k. tveimur námsgreinum.
Í samræmdum stúdentsprófum sem haldin voru 2., 3. og 4. maí 2005, misfórst prófskráning í einhverjum tilvikum meðal nemenda sem ætla að útskrifast úr framhaldsskóla í vor. Einnig komu veikindi og aðrar ástæður í veg fyrir próftöku hluta nemenda. Samkvæmt fyrrnefndri reglugerð er nemendum heimilt að endurtaka samræmt stúdentspróf einu sinni. Þar sem þeir nemendur sem útskrifast í vor hafa einungis haft eitt tækifæri til þess að taka próf bæði í ensku og stærðfræði, hefur menntamálaráðherra ákveðið að leyfa þessum nemendum að útskrifast án þess að hafa þreytt tvö samræmd stúdentspróf.
Þessu til staðfestingar hefur eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða verið sett í fyrrnefnda reglugerð og hefur breytingin þegar tekið gildi:
Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 4. gr. er þeim nemendum sem útskrifast með stúdentspróf í lok vorannar 2005, ekki skylt að hafa þreytt samræmd stúdentspróf í tveimur námsgreinum.