Gjöf Íslendinga til norsku þjóðarinnar í tilefni aldarafmælis landsins
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra mun á fundi með Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs laugardaginn 14. maí afhenda norsku þjóðinni gjöf Íslendinga í tilefni þess að 100 ár eru frá því að Norðmenn öðluðust sjálfstæði og norska konungdæmið var endurreist.
Þegar íslenska þjóðin hefur fagnað merkum tímamótum í sögu sinni hafa Norðmenn ætíð fært Íslendingum gjafir og ákvað ríkisstjórn Íslands á fundi sínum á þriðjudag að færa Norðmönnum veglega gjöf við þessi tímamót.
Norska þjóðin mun fá að gjöf 500 eintök af vandaðri útgáfu af Konungasögum í fjórum bindum með norskum inngangi. Meginefni bindanna er Morkinskinna, Sverris saga, Böglunga saga og Hákonar saga Hákonarsonar en þessar sögur skipa stóran sess í vitund Norðmanna og léku lykilhlutverk í sjálfstæðisbaráttu þeirra, líkt og fornritin hér. Áætlað er að fyrsta bindið komi út á næsta ári og hið síðasta árið 2009.
Áætlaður kostnaður við verkið er 14 - 16 milljónir króna og mun ríkisstjórnin beita sér fyrir jafnri fjárveitingu til verksins í fjárlögum áranna 2006 - 2009.
Í Reykjavík 13. maí 2005.