Erindi frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna
Stjórnarskrárnefnd
Stjórnarráðshúsinu
150 Reykjavík.
Reykjavík 15. maí 2005.
Ágætu fulltrúar í stjórnarskrárnefnd.
Ungir sjálfstæðismenn fagna því tækifæri sem almenningi er gefið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna fyrirhugaðra breytinga á stjórnarskránni. Ungir sjálfstæðismenn hyggjast nýta sér þennan kost. Óskum við eftir því að fulltrúum Sambands ungra sjálfstæðismanna gefist kostur á því að kynna áherslur sínar á málstofu um endurskoðun stjórnarskrárinnar laugardaginn 11. júní 2005, á Hótel Loftleiðum.
Fulltrúar Sambands ungra sjálfstæðismanna hafa ákveðið að leggja áherslu á þau mál sem tilgreind eru hér að neðan.
- Samband ungra sjálfstæðismann leggur til að embætti forseta Íslands verði lagt niður. Hlutverk embættisins er afar óljóst, auk þess sem ráðherra fer í reynd að mestu leyti með það vald sem forseta er falið samkvæmt stjórnarskrá. Hvað sem hugsanlegum málskotsrétti forsetans líður er ljóst að þrjú ákvæði stjórnarskrárinnar gera það að verkum að fyrst og fremst er um táknræna tignarstöðu að ræða, en það eru ákvæðin í 11. gr og 1. mgr. 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Ein helstu rök sem nefnd hafa verið fyrir tilvist embættisins er réttur forseta til að vísa lögum til almennrar atkvæðagreiðslu. Í ríflega 60 ára sögu lýðveldisins Íslands hefur slík atkvæðagreiðsla aldrei farið fram. Jafnframt væri eðlilegra að heimild til að synja lögum um staðfestingu yrði frekar komið meðal kjósenda sjálfra. Þannig mætti til dæmis krefjast samþykkis fjórðungs kosningarbærra manna á Íslandi til þess að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem samþykkt eru af Alþingi. Afnám forsetaembættisins hefði í för með sér víðtækar breytingar á stjórnarskránni, en rétt er að benda á að Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp með raunhæfri útfærslu á þessari breytingu (sjá fylgiskjal).
- Stjórnarskráin á að vera kjölfestan í íslenskri löggjöf og standa af sér „hin tíðu veðrabrigði stjórnmálanna og stundarátök þjóðfélagsaflanna“, svo vitnað sé til þekktra orða Ólafs Jóhannessonar, fyrrverandi lagaprófessors og forsætisráðherra. Um leið er mikilvægt að breytingar á stjórnarskránni séu raunhæfar. Samband ungra sjálfstæðismanna leggur til að tekin verði upp sú regla að til þess að hægt verði að breyta stjórnarskrá þurfi að ná samþykki 2/3 hluta alþingismanna, en nú er ekki kveðið á um aukinn meirihluta. Í kjölfarið skuli boða til almennra kosninga, eins og nú, en samhliða þeim kosningum skuli breytingarnar þó bornar undir atkvæði þjóðarinnar til samþykkis eða synjunar. Einfaldur meirihluti nægi til að samþykkja breytingarnar. Eðlilegt verður að teljast að þjóðin fái að greiða sérstaklega atkvæði um breytingar á stjórnarskrá samhliða þingkosningum, enda var stjórnarskráin upphaflega samþykkt með þjóðaratkvæðagreiðslu.
- Samband ungra sjálfstæðismanna telur að stuðningur ríkisins við trúfélag samrýmist ekki viðteknum hugmyndum um frelsi og að það mismuni trúfélögum hér á landi. Lagt er til að sjötti kafli stjórnarskrárinnar, sem lítur að þjóðkirkjunni, verði felldur út í heild sinni. Ákvæði kaflans mynda eina heild og verði þjóðkirkjan aflögð er engin þörf á öðrum ákvæðum kaflans enda er skoðanafrelsi og jafnræði gagnvart lögum verndað af öðrum greinum stjórnarskrárinnar. Með því að fella þennan kafla brott yrði trúfrelsi á Íslandi styrkt enn frekar í sessi.
- Samband ungra sjálfstæðismanna mótmælir harðlega öllum hugmyndum um að taka upp í stjórnarskrá ákvæði um svokallaða „sameign þjóðarinnar“ á auðlindum, hvort sem um er að ræða fiskistofnana við landið eða aðrar auðlindir. Ákvæði 1. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða þess efnis að „[n]ytjastofnar á Íslandsmiðum [séu] sameign íslensku þjóðarinnar“, sem margoft er vísað til í þessu samhengi, ber að skoða í samhengi við önnur ákvæði laganna og ummæli í greinargerð. Ljóst er að hugtakið „sameign þjóðarinnar“ er marklaust í eignarréttarlegum skilningi. Jafnframt er bent á að íslensk þjóðfélagsskipan hefur byggt á virðingu fyrir séreignarrétti og því má halda fram að hagsæld vesturlanda megi að mestu rekja til séreignaskipulags sem þar hefur verið við lýði. Saga síðustu aldar sýnir betur en nokkuð fram á yfirburði séreignaskipulags yfir sameignarskipulagi.
Sambandi ungra sjálfstæðismanna þykir því skjóta skökku við að hefja 21. öldina á því að færa í stjórnarskrá ákvæði sem mælti fyrir um jafn veigamikið fráhvarf frá séreignarskipulagi til sameignarskipulags. - Samband ungra sjálfstæðismanna minnir jafnframt á að stjórnarskránni er fyrst og fremst ætlað að standa vörð um réttindi borgaranna með því að mæla fyrir um takmarkanir á valdi ríkisins yfir borgurunum. Það er varhugavert að ganga lengra en nú er gert í stjórnarskránni í því að lista þar upp hinar ýmsu kröfur sem tilteknir þjóðfélagshópar telja sig eiga á hendur ríkinu og þar með samborgurum sínum.
Af svipuðum meiði eru hugmyndir um að taka upp í stjórnarskrá sérstakt ákvæði um umhverfisvernd og önnur þau ákvæði sem fela í sér að stjórnarskráin verður samansafn pólitískra stefnuyfirlýsinga sem enga hönd er á festandi. Slíkar hugmyndir eru algerlega úr takti við þá meginstefnu sem Samband ungra sjálfstæðismanna hefur markað. - Samband ungra sjálfstæðismanna leggur til að hlutverk dómenda verði skýrt frekar. Þeir hafa endurskoðunarvald þegar kemur að mati á því hvort lög standist stjórnarskrá. Þetta vald er mikilvægt til varnar stjórnarskránni og til að tryggja að ákvæðum hennar sé fylgt, ekki síst af stjórnvöldum á hverjum tíma. En af sömu ástæðu er mikilvægt að dómstólarnir misnoti ekki endurskoðunarvald sitt og gangi inn á valdsvið stjórnarskrárgjafans, til dæmis með hugmyndum um svokallað stjórnarskrárígildi alþjóðlegra sáttmála. Með slíkri framkvæmd vinna þeir einmitt gegn þeirri valdgreiningu sem endurskoðunarvaldinu er ætlað að tryggja. Í ljósi þess hlutverks stjórnarskrárinnar að tryggja fyrirsjáanleika og stöðugleika í íslenskri stjórnskipun er mikilvægt að stjórnarskrárgjafinn kveði sjálfur með skýrum hætti á um gildi alþjóðlegra skuldbindinga.
Það er von mín að þið fulltrúar í stjórnarskrárnefnd takið þessar tillögur til ítarlegrar skoðunar og að Sambandi ungra sjálfstæðismanna gefist kostur á að kynna þær á fyrrgreindri ráðstefnu, þann 11. júní næstkomandi.
Virðingarfyllst,
Hafsteinn Þór Hauksson,
formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.