Úttekt á vefjum ríkis og sveitarfélaga
Forsætisráðuneytið, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, vinnur nú að úttekt á vefjum ríkisstofnana og sveitarfélaga. Verkefnið er liður í stefnu ríkisstjórnarinnar, Auðlindir í allra þágu sem kom út í mars 2004 (hlekkur hér). Þar eru sett fram markmið um að tekið verði saman yfirlit yfir þá rafrænu þjónustu sem er í boði hjá opinberum aðilum.
Tilgangurinn með verkefninu er að fá heildstætt yfirlit yfir alla þá rafrænu þjónustu sem er í boði hjá ríki og sveitarfélögum, en einnig að auka vitund opinberra aðila um það hvar þeir standa í samanburði við aðra og gefa betri hugmynd um möguleika og tækifæri sem felast í rafrænni þjónustu.
Framkvæmdaraðili verksins er fyrirtækið Sjá ehf sem mun skoða og meta um 340 vefi, meðal annars með tilliti til nytsemi, aðgengi og gæða.
Ætlunin er að verkefninu ljúki í haust og verða niðurstöðurnar þá kynntar.