Hoppa yfir valmynd
20. maí 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Evrópskt svæði æðri menntunar verði orðið að veruleika árið 2010

Fjórði ráðherrafundur Bologna-ferlisins haldinn í Bergen

Fjórði ráðherrafundur Bologna-ferlisins haldinn í Bergen

Fjórði fundur evrópskra menntamálaráðherra í svokölluðu Bologna-ferli var haldinn í Bergen í Noregi 19. og 20. maí. Á fundinum undirrituðu ráðherrarnir yfirlýsingu, þar sem þeir ítrekuðu ásetning sinn um að halda samstarfinu áfram með auknum krafti þannig að árið 2010 yrði evrópskt svæði æðri menntunar að veruleika, þar sem nemendur og starfsmenn gætu stundað nám og störf utan heimalands síns án hindrana og fengið námið metið í heimalandinu, byggt á gagnkvæmu trausti.

Af Íslands hálfu sótti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, fundinn. Á fundinum lýstu ráðherrarnir ánægju sinni með árangurinn sem þegar hefur náðst í átt til nánara samstarfs á grundvelli Bologna-ferlisins. Þetta samstarfsferli hófst með yfirlýsingu menntamálaráðherra 29 Evrópulanda, þar á meðal Íslands, í Bologna 1999 og voru þar sett markmið, sem náð skyldi fyrir 2010.

Menntamálaráðherra lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi gæðatryggingar til þess að slíkt traust gæti ríkt og að skólar gætu haldið sérstöðu sinni í stað þess að reynt væri að steypa þá í sama mót. Þróun gæðakerfa verður eitt aðaláhersluefni innan Bologna samstarfsins fram að næsta ráðherrafundi, sem haldinn verður 2007.

Síðasti ráðherrafundur var haldinn í Berlín 2003 og þar var nýjum þætti bætt í ferlið, en það er efling samstarfs æðri menntastofnana og rannsóknastofnana. Menntamálaráðherra ræddi mikilvægi þessa samstarfs og benti á lykilhlutverk háskóla sem bakhjarla þróunar í rannsóknum og nýsköpun.

Yfirlýsingin frá Bologna er viljayfirlýsing og framkvæmd hennar byggist á áhuga hlutaðeigandi aðila í hverju landi á að vinna á grundvelli hennar, bæði stjórnvalda, æðri menntastofnana, starfsfólks þeirra og nemenda.

Háskólar á Íslandi hafa lýst eindregnum stuðningi við markmið Bologna-ferlisins. Í umsögn samstarfsnefndar háskólastigsins, sem ráðherra barst vegna fundarins í Bergen segir m.a. að öflugir háskólar séu forsenda þess þekkingarsamfélags sem Bologna-ferlið miði að. Lögð er áhersla á tengsl rannsókna og kennslu innan háskóla, en í Bergen-yfirlýsingunni er einnig fjallað um mikilvægi þessara tengsla.

Samstarfsnefndin leggur einnig áherslu á gæðatryggingu og mikilvægi gæðakerfa, en í yfirlýsingu ráðherranna eru slík kerfi og þróun þeirra í brennidepli. Allir háskólar á Íslandi hafa markað sér stefnu í gæðamálum og hafa annað hvort komið á fót gæðakerfi eða eru að þróa slík kerfi.

Í Bologna-yfirlýsingunni var ákveðið að auðvelda samanburð á námi milli landanna með því að leggja til að allir háskólar tækju í meginatriðum upp kerfi sem byggðist á BA-gráðu og MA-gráðu og í Berlín var doktorsgráðu bætt við ferlið. Þetta kerfi hefur tíðkast hér á landi um áratuga skeið, en þau lönd sem höfðu önnur kerfi hafa flest lokið við breytingar í samræmi við Bologna-yfirlýsinguna.

Í Berlín ákváðu ráðherrarnir að fyrir fundinn 2005 skyldi gerð úttekt á hvernig gengi að ná þremur þeirra markmiða, sem sett voru í Bologna. Eitt þessara markmiða var gráðukerfið, sem flestir hafa tekið upp, annað voru sambærilegar prófgráður og prófskírteinisviðauki með innihaldslýsingu og það þriðja var gæðatrygging.

Löndin eru mislangt á veg komin að ná þessum markmiðum. Á Íslandi hafa tvö fyrrnefndu markmiðin nást nær algerlega, en við eigum aðeins lengra í land með það þriðja þótt þar vanti ekki mikið upp á.

Bologna-ferlið er skipulagt kringum ráðherrafundi sem haldnir eru annað hvert ár. Næsti fundur verður í London, haustið 2007. Við upphaf fundarins í Bergen voru aðildarlöndin að Bologna-ferlinu 40, en á fundinum bættust fimm í hópinn: Armenía, Aserbaidsjan, Georgía, Moldóva og Úkraína.

Þar sem allir hlutaðeigandi aðilar í hverju landi verða að taka virkan þátt í framkvæmd Bologna-ferlisins eigi markmiðin að nást, er samtökum háskóla og samtökum stúdenta í Evrópu boðið að sitja ráðherrafundina. Einnig sitja þá fulltrúar Evrópuráðsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og í Bergen var ákveðið að samþykkja umsókn samtaka atvinnurekenda í Evrópu (UNICE) um aðild að ferlinu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum