Að læra og lifa í lýðræði, málþing um borgaravitund og lýðræði í skólastarfi
Menntamálaráðuneytið efnir til málþings með ungu fólki um borgaravitund og lýðræði mánudaginn 30. maí 2005. Málþingið verður haldið í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð og hefst kl. 10:00. Til málþingsins verður boðið nemendum í framhaldsskóla og efstu bekkjum grunnskóla og fulltrúum æskulýðs- og ungmennahreyfinga.
Tilgangurinn með málþinginu er að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að ræða um borgaravitund og lýðræði frá eigin sjónarhorni. Umræða mun skapast um hvernig skólinn og samfélagið geti stuðlað betur að því að efla lýðræðislega færni nemenda í skóla- og félagsstarfi og undirbúa ungt fólk undir að vera virkir borgarar í lýðræðislegu samfélagi.
Málþingið er liður í áætlun menntamálaráðuneytis um verkefni í tilefni af Evrópuári um borgaravitund og lýðræði í skólastarfi 2005. Menntun í borgaravitund (Education for Democratic Citizenship) hefur verið eitt af áhersluverkefnum Evrópuráðsins á sviði menntunar frá 1997 og almennt markmið í stefnumótun á síðustu árum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ávarpar málþingið kl. 10:00.
Vinna unga fólksins stendur til kl. 14:50 og þá tekur við samantekt og fundarslit. Að þeim loknum verður hlaðin varða úr grjóti sem þátttakendur hafa skrifað á það orð sem þeim er efst í huga eftir umræður dagsins um borgaravitund. Varðan er táknræn og sýnilegur vegvísir til að efla borgaravitund ungs fólks í framtíðinni.