Hoppa yfir valmynd
27. maí 2005 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD)

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 13/2005

Aðalfundur Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD), var haldinn í Belgrade, í Serbíu og Svartfjallalandi 22. – 23. maí síðastliðinn og sótti Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fundinn fyrir Íslands hönd. Mikil aðsókn var að fundinum þar sem 2.500 aðilar frá stjórnvöldum, atvinnulífi og öðrum aðilum sóttu fundinn, en fjölmargir kynningarfundir og fyrirlestrar voru samhliða aðalfundi bankans sem aðilar úr atvinnulífi sóttu.

Í ávarpi sem ráðherra flutti á fundinum, lagði hún áherslu á mikilvægi bankans við umbætur á sviði lýðræðis- og hagþróunar, og að verulegur árangur hefði náðst með starfseminni. Þetta mætti m.a. sjá á Balkan-svæðinu, þar sem bankinn hefði lagt grunn að framþróun og stöðugleika og því væri fagnaðarefni að fundurinn væri haldinn þar, til að leggja áherslu á frekari skref í þá átt. Einnig vakti hún athygli á margvíslegri sérfræðiþekkingu og reynslu Íslendinga sem nýst gætu verkefnum bankans m.a. á sviði orkumála s.s. jarðvarma og vatnsafls. Þess má einnig geta að bankinn hefur veitt íslenskum fyrirtækjum þjónustu og lánveitingar t.d. lyfjafyrirtækinu Actavis í Búlgaríu.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, átti einnig sérstakan fund með efnahagsmálaráðherra Albaníu, Anastas Angjeli, þar sem rætt var almennt um hugsanlegt samstarf landanna m.a. á sviði orkumála. Í því sambandi kom til umfjöllunar verkefni Landsvirkjunar um virkjun Bratile í Albaníu og sat fulltrúi Landsvirkjunar fundinn. Jafnframt átti ráðherra fund með fulltrúum á orkusviði EBRD bankans, þar sem m.a. var fjallað um mögulegar kynningar bankans á starfseminni á Íslandi.

EBRD-bankinn ryður braut í byrjunarfjárfestingum í þeim löndum sem eru að feta sig inn á braut lýðræðis og opins markaðshagkerfis, en hann veitir hinsvegar ekki lán til þeirra landa sem ekki hafa opin markaðshagkerfi og lýðræði. Á aðalfundinum var sérstaklega rætt um þær miklu breytingar sem hvarvetna væru að gerast á sviði efnahagsmála og tækni. Starfsemi bankans gekk vel á síðasta ári, sem kom m.a. fram í afkomu og árangri af einstaka verkefnum, en bankinn veitir bæði lán og ábyrgðir og getur einnig gerst aðili með hlutafjárkaupum í fyrirtækjum. Það er þó einungis gert ef fyrir liggur skýr áætlun um hvernig bankinn geti dregið sig út úr slíkri starfsemi síðar og selt sinn hlut eftir að rekstur er kominn í réttan farveg.

Á fundinum kom fram sú skoðum að ríki í austur- og mið Evrópu, s.s. nýleg aðildarríki ESB, hefðu notið starfsemi bankans, og nú væri hag- og lýðræðisþróun komin það vel á veg og fjármálakerfi þessara landa væri það sterkt að tími væri til að bankinn drægi úr starfsemi á þessu svæði og legði áherslu á svæði sem væru austar og sunnar. Í því sambandi var sérstaklega horft til landa sem nýlega hefðu sýnt mikla framför í átt til lýðræðis og opins hagkerfis s.s. Úkraníu og Georgíu og svo virtist sem vaxandi áhugi væri hjá erlendum fjárfestum til fjárfestingar í þessum löndum. Á fundinum kom hinsvegar fram hörð gagnrýni á þá valdbeitingu sem stjórnvöld hefðu sýnt í Úsbekistan, en bankinn myndi ekki starfa í löndum við slíkt ástand.

Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu (EBRD), var stofnaður 1991 og eru hluthafar auk Íslands 62 lönd og er megin hlutverk bankans að stuðla að umskiptum úr miðstýrðum áætlunarbúskap fyrrum austantjaldsríkja, yfir í opin hagkerfi og efla um leið hag- og lýðræðisþróun þessara landa. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið fer með málefni EBRD.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið

26. maí 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum