Dómsmálaráðherra kynnir áherslur vegna kynbundins ofbeldis.
Fréttatilkynning
Nr. 20/2005
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra hefur falið Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, að huga að breytingum og semja drög að frumvarpi á þeim ákvæðum í kynferðisbrotakafla almennra hegningalaga, sem eru um nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, kynferðisbrot gegn börnum og vændi.
Ráðherrann skýrði frá þessu á fjölmennum morgunverðafundi, sem haldinn var föstudaginn 27. maí 2005 að frumkvæði aðgerðahóps gegn kynbundnu ofbeldi en á fundinum kynnti Drífa Snædal, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, áætlun hópsins, sem samin var eftir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi á liðnum vetri.
Björn Bjarnason sagði frá því starfi, sem unnið á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og fellur undir markmið aðgerðaáætlunarinnar.
Hann nefndi fimm atriði sérstaklega til sögunnar:
-
Ráðherra sendi bréf til allsherjarnefndar alþingis í apríl síðastliðum, þar sem vakin var athygli á því, að erindi hefði borist frá aðgerðahópnum og sagt frá því, að tillögurnar beindust m.a. að breytingum á réttarkerfinu. Ráðuneytið hefði hug á því að vinna úr þeim tillögum hópsins. Áætlunin hefði þegar verið tekin til umfjöllunar í samráðsnefnd um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum, sem sett var á laggirnar í janúar 2003 og starfaði í umboði félagsmálaráðuneytisins.
-
Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, hefði verið falið að taka til endurskoðunar eftirtalda kynferðisbrotaflokka: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, kynferðisbrot gegn börnum, og vændi. Hún mundi semja drög að frumvarpi, sem yrði tekið til umfjöllunar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, væntanlega í haust og yrði kynnt af ráðuneytinu og lagt fram á alþingi næsta vetur.
Ráðherra taldi miklu skipta, að við endurskoðun á ofangreindum ákvæðum í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga yrði byggt á traustum refsiréttarlegum grunni og tekið mið af alþjóðlegri þróun á þessu sviði auk íslenskrar lagahefðar. Jafnframt væri nauðsynlegt að fá yfirlit yfir beitingu hinna íslensku lagaákvæða á þeim 13 árum, sem liðin væru frá samþykkt þeirra. Almennu hegningarlögin væru grundvallarlög og ekki mætti rasa um ráð fram við uppbrot eða breytingar á þeim, þótt þau yrðu að sjálfsögðu að svara kalli tímans. -
Í tilefni af umræðum um heimilisofbeldi, sagðist ráðherra hafa óskað eftir áliti refsiréttarnefndar á þeim sjónarmiðum, sem fram hefðu komið um það, hvort setja bæri í almenn hegningarlög sérrefsiákvæði um heimilisofbeldi eða hvort áfram skyldi stuðst við núgildandi ákvæði hegningarlaga sem fjalla um ofbeldi. Vænti hann þess, að nefndin skilaði fljótlega áliti sínu.
-
Ráðherra fól ríkislögreglustjóra í febrúar sl. að setja verklagsreglur um skráningu og meðferð heimilisofbeldismála hjá lögreglu til að taka af tvímæli um vafaatriði við rannsókn þeirra og að breyta viðhorfum lögreglu til heimilisofbeldismála. Fyrstu tillögur um efni reglnanna eru til meðferðar hjá ráðuneytinu
-
Á liðnum vetri skipaði ráðherra starfshóp með fulltrúum allra þingflokka, ásamt fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, til að kynna sér reynslu af mismunandi löggjöf um vændi, klámiðnað og mansal í Evrópu. Sérstaklega var þess farið á leit, að hópurinn kynnti sér reynsluna af þeirri löggjöf í Svíþjóð, sem gerir kaup á vændi refsiverð og mæti kosti þeirrar löggjafar og galla. Nefndarsstarfið er á lokastigi og taldi ráðherra eðlilegt, að skýrsla nefndarinnar yrði nýtt í starfi Ragnheiðar Bragadóttur prófessors.
Björn Bjarnason taldi, að þessi listi sýndi glöggt, að mál, sem snerta aðgerðaáætlunina gegn kynbundnu ofbeldi, væru meðal áherslumála dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um þessar mundir.
Reykjavík 27. maí 2005