Hoppa yfir valmynd
27. maí 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Opnun nýrrar sorpmóttöku og brennslustöðvar hjá Sorpeyðingu Suðurnesja - Kölku

Ávarp umhverfisráðherra.

 

Framkvæmdastjóri, stjórn og starfsmenn Kölku, ágætu gestir.

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag þegar Sorpeyðingarstöð Suðurnesja tekur í notkun nýja sorpmóttöku- og brennslustöð.

Margt hefur áunnist í úrgangsmálum að undanförnu og stigin hafa verið framfaraskref í meðhöndlun og endurnýtingu úrgangs. Nýlega hafa orðið miklar breytingar á laga- og reglugerðarumhverfi á þessu sviði. Árið 2003 var sett fyrsta almenna úrgangslöggjöfin hér á landi með setningu laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Lögin taka mið af þeim skuldbindingum sem fylgja þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu. Markmið laganna er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, að dregið verði með skipulegum hætti úr myndun úrgangs eftir því sem unnt er og að þeim úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu. Samkvæmt lögunum er sveitarfélögum skylt að innheimta þann kostnað sem förgun úrgangs hefur í för með sér og heimilt að innheimta gjöld fyrir aðra meðhöndlun úrgangs.

Einnig er í lögunum kveðið á um áætlanir um meðhöndlun úrgangs. Annars vegar landsáætlun fyrir tímabilið 2004 til 2016 sem kom út í fyrra og hins vegar svæðisbundnar áætlanir sveitarfélaga sem koma út á þessu ári. Lands- og svæðisáætlanir skal endurskoða á þriggja ára fresti og markmið þeirra er að draga úr myndun úrgangs, auka endurnotkun og endurnýtingu. Sveitarfélög geta gert sameiginlegar áætlanir fyrir svæði einstakra sorpsamlaga og það er einstaklega ánægjulegt að nú er unnið að einni sameiginlegri svæðisáætlun fyrir Suðurland, Suðurnes, höfuðborgarsvæðið og Vesturland eða yfir svæði sem nær til 46 sveitarfélaga. Stjórnir sorpsamlaga og sveitarstjórnir á þessu svæði sýna með þessu framtaki mikla framsýni og ljóst er að þessi samvinna eykur möguleika á að taka á markvissari og hagkvæmari hátt á úrgangsmálum.

Sorpbrennslustöðin sem tekin er í notkun hér í dag er sú fyrsta á landinu sem uppfyllir nýjar kröfur sem gerðar eru til sorpbrennslustöðva í samræmi við reglugerð um brennslu úrgangs sem kom út á árinu 2003. Stöðin gerir kleift að nýta þá orku sem verður til við brennslu úrgangs og mun vonandi geta tekið í auknum mæli við úrgangi sem hentar vel til orkuframleiðslu. Eins og ég hef nefnt þá er það markmið íslenskra stjórnvalda að dregið verði skipulega úr myndun úrgangsefna og að úrgangi sé komið í endurnotkun og endurnýtingu. Lög um úrvinnslugjald eiga m.a. að vinna að þessu markmiði. Samkvæmt þeim lögum er Úrvinnslusjóði falið að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs, draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi meðferð spilliefna. Sjóðurinn beitir svokölluðum hagrænum hvötum til að koma á skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs, þannig að fyrirtæki á markaði sjái sér hag í því að koma að úrvinnsluferlinu. Kalka mun væntanlega eiga aukin viðskipti við sjóðinn þegar fram líða stundir.

Það er mikið framfaraskref sem er stigið hér í dag þegar tekin er formlega í notkun þessi nýja móttöku- og brennslustöð fyrir úrgang.

Um leið og ég óska stjórnendum og öllum starfsmönnum Kölku hjartanlega til hamingju með þessa glæsilegu sorpbrennslustöð óska ég þeim velfarnaðar í mikilvægum störfum sínum á komandi árum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta