Hoppa yfir valmynd
29. maí 2005 Matvælaráðuneytið

Opinber heimsókn Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra til Noregs

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra er nýkominn heim frá Noregi þar sem hann var í opinberri heimsókn í boði norska landbúnaðarráðherrans Lars Sponheim. Á fundi sem Guðni Ágústsson átti með norska landbúnaðarráðherranum var m.a. rædd hugsanleg samvinna þjóðanna við mótun og þróun nýrrar landbúnaðarstefnu á norðlægum slóðum, en landbúnaður Íslands og Noregs stendur frami fyrir samskonar áskorun varðandi stuðning við landbúnað vegna breyttra áherslna innan Alþjóða viðskiptamálastofnunarinnar (WTO).

Ráðherrarnir ræddu einnig tvíhliðasamninga milli Íslands og Noregs og tók norski landbúnaðarráðherrann vel í hugmyndir Guðna Ágústssonar um að breyta reglum varðandi úthlutun á tollkvótum í Noregi fyrir innflutning á íslenskum hestum. Guðni Ágústsson lagði einnig fram óskir um að breyta ákvæðum EFTA-samningsins varðandi tollfrjálsan kvóta fyrir íslenskt lambakjöt. En samkvæmt honum er Íslenskum framleiðendum ekki heimilt að selja ferskt lambakjöt í Noregi, auk þess sem Íslendingum er einungis heimilt að selja kjöt til eins aðila í Noregi. Norski landbúnaðarráðherrann lýsti sig reiðbúinn til viðræðna um breytingar hvað varðaði þetta en þó í tengslum við heildarendurskoðun samningsins.

Báðir ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi norrænar samvinnu fyrir Norðurlöndin, en fram kom á fundinum hversu áherslur Íslendinga og Normanna eru samhljóða.      

Framkvæmd EES-samnings var einnig rædd og þá sérstaklega hugsanlega yfirtöku Íslendinga á viðauka 1 sem fjallar um verslun með landbúnaðarvörur. Norski ráðherrann lýsti því yfir að þeir væru tilbúnir til að miðla til Íslendinga af reynslu sinni varðandi yfirtöku á þessari ESB-gerð. Fram kom að fullur skilningur væri á sérstöðu íslensk landbúnaðar innan norskur ríkisstjórnarinnar hvað varðar sérstaklega gott sjúkdómsástand íslenskra bústofna ásamt sérstöðu þeirra hvað varðaði erfðafjölbreytileika. Í þessu sambandi lýsti norski landbúnaðarráðherrann því yfir að Noregur myndi styðja Íslendinga 100% innan ESA við að fá undanþágur hvað þetta varðar við yfirtöku á viðauka 1.

Guðni Ágústsson heimsótti fjölda búgarðar og afurðarstöðvar í ferðinni í Hörðarlandi en áherslan í ferðinni var að kynna nýsköpun í norskum landbúnaði. Norska ríkisstjórnin hefur nú um nokkurt skeið verið með sérstakt átaksverkefni til að efla atvinnu og byggð í sveitahéruðum sem kallast “Landbruk +”. Meginmarkmið verkefnisins hefur verið að efla heimavinnslu afurða, bændamarkaði, þróun og vinnslu sérstakra þjóðlegra sér-norskra landbúnaðarafurða og tengja þannig saman menningu, sögu og landbúnað.

Með Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra í för eru kona hans frú Margrét Hauksdóttir, Eysteinn Jónsson aðstoðarmaður ráðherrans, Hákon Sigurgrímsson skrifstofustjóri í Landbúnaðarráðuneytinu, Ágúst Sigurðsson rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Bjarni Guðmundsson prófessor við Landbúnaðarháksóla Íslands og Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands. 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum