Endurvinnslustöðin í Sellafield
Umhverfisráðherra hefur óskað eftir nákvæmum skriflegum upplýsingum frá breskum stjórnvöldum um atvikið sem átti sér stað þegar um 83.000 rúmlítrar af geislavirkum vökva láku úr skemmdu röri í endurvinnslustöðinni í Sellafield.
Ráðherra mun jafnframt taka málið upp á fundi Norrænu umhverfisráðherranna í ágúst á þessu ári, en Ísland hefur ásamt hinum Norðurlöndunum ítrekað brýnt fyrir breskum stjórnvöldum þá hættu sem hreinleika Norður-Atlantshafsins stafar af losun geislavirkra efna frá endurvinnslustöðinni í Sellafield.
Í tilkynningu frá British Nuclear Group þann 27. maí kemur fram að allt bendi til þess að lekinn hafi staðið yfir frá því í janúar á þessu ári. Þó nokkur óvissa ríkir hins vegar um það hvort lekinn hafi jafnvel staðið lengur yfir, en athuganir benda til þess að rörið sem lak úr hafi skemmst í ágúst í fyrra. Þá er tekið fram að lekinn hafi ekki borist út úr verksmiðjunni og að starfsmenn og umhverfi hafi ekki orðið fyrir áhrifum vegna lekans. Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að starfsmenn endurvinnslustöðvarinnar hefðu átt að greina þennan leka mun fyrr en raun ber vitni. British Nuclear Group rekur endurvinnslustöðina í Sellafield en hún er í eigu breskra stjórnvalda.
Í umhverfisráðuneytinu hefur verið fylgst náið með þessu máli allt frá því að fyrstu fréttir af lekanum bárust. Málið hefur verið rætt við sendiherra Bretlands á Íslandi auk þess sem samband hefur verið haft við fulltrúa British Nuclear Group.
Í ljósi þeirra upplýsinga sem nú hafa komið fram þykir brýnt að bresk stjórnvöld geri nákvæma grein fyrir þeirri atburðarrás sem olli lekanum og hvernig stóð á því að svo langur tími leið frá því að lekinn hófst þar til upp um hann komst. Frekari viðbrögð umhverfisráðuneytisins munu meðal annars ráðast af svörum breskra yfirvalda.
Fréttatilkynning nr. 17/2005
Umhverfisráðuneytið