Fundur forsætisráðherra með Abdul Kalam, forseta Indlands
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, átti í dag fund með dr. Abdul Kalam, forseta Indlands, í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Þeir ræddu m.a. um nauðsyn þess að finna leiðir til að auka viðskipti landanna tveggja og í því samhengi minntist forsætisráðherra á þann áhuga hérlendis að koma á fríverslun við Indland. Möguleg samstarfsverkefni ríkjanna á ýmsum sviðum voru og reifuð, einkum í tengslum við lyfjaiðnað og sjávarútveg. Þá ræddu þeir hugmyndir um að koma á tengslum og samstarfi vísindamanna frá Íslandi og Indlandi einkum í því skyni að auka færni manna til að sjá fyrir náttúruhamfarir á borð við jarðskjálfta. Á fundinum var ennfremur rætt um ýmis alþjóðamál. Voru forsætisráðherra og forseti sammála um nauðsyn á umbótum á Sameinuðu þjóðunum og forsætisráðherra ítrekaði stuðning Íslands við tillögu Indlands og fleiri ríkja um endurskoðun á starfsháttum og samsetningu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Alþjóðaviðskiptastofnunina bar og á góma og hversu mikilvægt væri að yfirstandandi lota væri sem fyrst til lykta leidd til að liðka enn fyrir viðskiptum milli ríkja stofnunarinnar.
Að loknum fundi var haldið til Þingvalla þar sem forsætisráðherrahjón buðu til hádegisverðar til heiðurs forsetanum.
Í Reykjavík 31. maí 2005.