Hoppa yfir valmynd
31. maí 2005 Matvælaráðuneytið

Gerð vaxtarsamnings Vestfjarða.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 15/2005

Gerð Vaxtarsamnings Vestfjarða

Fyrir nokkru var kynnt skýrsla nefndar um byggðaþróun Vestfjarða, en starf nefndarinnar er hluti af verkefnum innan byggðaáætlunar stjórnvalda sem nær yfir tímabilið 2002 - 2005, sem og áherslum iðnaðar- og viðskiptaráðherra á sviði byggðamála. Í niðurstöðum skýrslunnar er m.a. lagt til að gerður verði svokallaður vaxtarsamningur er nái frá 2005 til 2008 sem byggist á nýjum aðferðum við að styrkja hagvöxt einstakra svæða með uppbyggingu klasa. Lögð er m.a. áhersla á klasa á sviði sjávarútvegs og matvæla, mennta og rannsókna og menningar og ferðaþjónustu.

Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis, m.a í Finnlandi, Ítalíu og Bandaríkjunum þar sem lögð er aukin áhersla á að efla byggðakjarna. Segja má að um nýjung sé að ræða hér á landi á sviði byggðamála, þar sem kjarni aðferðarinnar felst í að styrkja sjálfbæran hagvöxt viðkomandi svæðis með markaðstengdum áherslum, en sambærilegt verkefni er einnig komið til framkvæmda á Eyjafjarðarsvæðinu. Í framhaldi af tillögum skýrslunnar hefur verið unnið að undirbúningi Vaxtarsamnings Vestfjarða fyrir árin 2005 - 2008, í nánu samráði við aðila á Vestfjörðum.

Það er ánægjuleg nýjung að fjármálastofnanir skulu einnig koma að þessu starfi, en afar mikilvægt er að helstu aðilar á viðkomandi stöðum geti tekið þátt í starfi sem þessu, til að auka samkeppnishæfni og vöxt svæðisins. Á tímum alþjóðavæðingar og vaxandi samkeppni er slíkt samstarf afar mikilvægt.

Heildarfjármagn til reksturs samningsins þessi tæp 4 ár er áætlað um 140 millj. kr. - þar af komi um helmingur frá sveitarfélögum á svæðinu, einkaaðilum og stofnunum - og um helmingur frá stjórnvöldum, þ.e. byggðaáætlun í umsjón iðnaðarráðuneytis.

Þannig leggur iðnaðarráðuneytið fyrir hönd stjórnvalda til 75 millj. kr. þar sem byggt er á fjárheimildum innan ramma byggðaáætlunar sem þegar eru fyrir hendi fyrir árin 2004 - 5 og væntanlegri byggðaáætlun fyrir árin 2006 - 7, með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Mótframlag að upphæð um 65 millj. kr. verður fjármagnað af öðrum aðilum samningsins þ.e. Ísafjarðarbæ, Fjórðungssambandi Vestfirðinga fyrir hönd sveitarfélaga á Vestfjörðum, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf, Odda hf, Vinnuveitendafélag Vestfjarða, Hólmadrangi hf og Kaupfélagi Steingrímsfjarðar, Sparisjóði Vestfirðinga, Sparisjóði Bolungarvíkur, Landsbanka Íslands, Íslandsbanka, Byggðastofnun, Háskólasetri Vestfjarða, Iðntæknistofnun Íslands og Útflutningsráði Íslands.

Framlag stofnana verður að mestu í formi sérfræðivinnu. Auk þessara aðila eru stéttarfélög á Vestfjörðum einnig aðilar að væntanlegum samningi.

Skrifað verður undir samninginn 31. maí að Hótel Ísafirði, kl. 13:00. Fjölmiðlum er boðið að vera viðstaddir.

 

Reykjavík, 31. maí, 2005.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta