Hoppa yfir valmynd
31. maí 2005 Matvælaráðuneytið

Nr. 5/2005 - Aðsetur Landbúnaðarstofnunar

Á nýliðnu löggjafarþingi voru samþykkt á Alþingi ný lög um Landbúnaðarstofnun.  Með lögunum er lagður grunnur að sameiningu stofnana, embætta og verkefna á sviði eftirlits og stjórnsýslu innan landbúnaðarins í eina öfluga eftirlits- og stjórnsýslustofnun, Landbúnaðarstofnun.  Mun stofnunin taka til starfa frá og með 1. janúar 2006.

 Í nefndaráliti landbúnaðarnefndar Alþingis um Landbúnaðarstofnun kemur fram að meiri hlutinn telur mikilvægt að starfsemi stofnunarinnar verði sem næst þeim er nýta þjónustu hennar, þ.e. utan höfuðborgarsvæðisins.  Kveða lögin á um að aðsetur stofnunarinnar skuli vera þar sem landbúnaðarráðherra ákveður.  Hefur landbúnaðarráðherra nú ákveðið að höfuðstöðvar Landbúnaðarstofnunar skuli staðsettar á Selfossi, sem er öflugur þjónustubær í landbúnaðarhéraði.  Útibú frá Landbúnaðarstofnun mun verða staðsett á höfuðborgarsvæðinu, m.a. til að þjónusta einstaklinga og fyrirtæki í inn- og útflutningi.  Jafnframt munu héraðsdýralæknar hér eftir sem áður starfa í sínum umdæmum víðsvegar um landið.

 Embætti forstjóra Landbúnaðarstofnunar verður auglýst laust til umsóknar á komandi dögum, en hann skal skipaður frá og með 1. ágúst n.k.  Lög um Landbúnaðarstofnun kveða á um að landbúnaðarráðherra skuli setja í reglugerð nánari ákvæði um skipulag og starfsemi stofnunarinnar að fengnum tillögum forstjóra.  Mun því frekari útfærsla á skipulagi stofnunarinnar bíða ráðningar forstjóra.

 Hinni nýju stofnun er falin framkvæmd ýmissa eftirlits- og stjórnsýsluverkefna samkvæmt lögum sem talin eru upp í 2. gr. laga um Landbúnaðarstofnun.  Þannig mun stofnunin taka við þeim verkefnum sem verið hafa í höndum yfirdýralæknis, veiðimálastjóra, aðfangaeftirlitsins, kjötmatsformanns og plöntueftirlitsins.  Að auki mun Landbúnaðarstofnun fara með stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtök Íslands hafa farið með og varða framleiðslustýringu í landbúnaði, forðagæslu og eftirlit með aðbúnaði búfjár.

 

Í landbúnaðarráðuneytinu,

30. maí 2005

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta