Hoppa yfir valmynd
31. maí 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samkomulag milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um fasteignamál

Í dag skrifuðu fulltrúar ríkisins og Reykjavíkurborgar undir samkomulag um eignaskipti og sölu fasteigna sem verið hafa í sameign ríkis og borgar.
Undritun um samkomulag milli rikisins og Reykjavíkurborgar
Undritun um samkomulag milli rikisins og Reykjavíkurborgar

Í dag skrifuðu fulltrúar ríkisins og Reykjavíkurborgar undir samkomulag um eignaskipti og sölu fasteigna sem verið hafa í sameign ríkis og borgar. Samkomulagið nær til fasteigna sem nýttar hafa verið undir starfsemi sérskóla og framhaldsskóla, en í felst jafnframt að Heilsuverndarstöðin við Barónstíg verður seld. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra skrifuðu undir samkomulagið fyrir hönd ríkisins og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Um nokkurt skeið hafa farið fram viðræður milli fulltrúa fjármála- og menntamálaráðuneytis, annars vegar, og Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar, hins vegar, um húsnæðismál sérskóla. Þegar rekstur grunnskólans var fluttur til sveitarfélaganna árið 1996 yfirtóku sveitarfélögin fasteignir sem nýttar höfðu verið fyrir skólahald, með þeirri undantekningu að húsnæði sérskóla skyldi áfram vera í eigu ríkisins. Var þetta gert þar sem nokkur óvissa var uppi um áframhaldandi rekstur sérskólanna og hvernig samstarf sveitarfélaganna um málefni þeirra myndi skipast.

Viðræðurnar sem farið hafa fram undanfarið hafa snúist um hvernig best sé að hátta eignarhaldi á húsnæði sérskólanna, nú þegar sýnt er að rekstur þeirra verður áfram á hendi sveitarfélaganna, og breytingar á eignarhaldi á öðru húsnæði sem er í sameiginlegri eigu ríkis og sveitarfélaga, þá einkum Reykjavíkurborgar.

Niðurstaða er nú fengin í viðræðurnar og var samkomulag undirritað í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag af fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og borgarstjóra. Það felur í sér eftirfarandi: ·

  • Reykjavíkurborg yfirtekur eignarhald á Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla, þar sem rekin er þjónusta við fötluð grunnskólabörn, og á minni húseignum við Vesturhlíðarskóla, þar sem einnig er rekin þjónusta við fötluð grunnskólabörn, ásamt Brúarskóla, sérskóla fyrir börn á grunnskólaaldri með félagslegar og geðrænar raskanir.
  • Það húsnæði sérskóla sem ekki er nauðsynlegt að nýta fyrir starfsemi slíkra skóla verður selt og andvirðið nýtt til að kosta uppbyggingu á nýrri sérdeildarálmu fyrir fatlaða við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Húsnæðið sem hér um ræðir er aðalbygging fyrrum heyrnleysingjaskólans (Vesturhlíðarskóla), en kennsla og þjónusta við heyrnarlaus- og heyrnarskert börn á grunnskólaaldri hefur verið sameinuð á einn stað í nýrri viðbyggingu við Hlíðaskóla. ·
  • Samkvæmt samkomulaginu kaupir Reykjavíkurborg eignarhluta ríksins í Vörðuskóla, sem Iðnskólinn í Reykjavík nýtir nú, og verður það húsnæði afhent þegar Iðnskólinn í Reykjavík getur flutt í nýtt húsnæði sem kostað verður að 40 hundraðshlutum af Reykjavíkurborg í samræmi við kostnaðarskiptaákvæði 37. gr. framhaldsskólalaga, nr. 80/1996. ·
  • Ríkið og Reykjavíkurborg munu selja húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík við Barónsstíg á almennum markaði og verður andvirðinu skipt á milli eigenda í samræmi við eignarhlutföll.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum