Hoppa yfir valmynd
31. maí 2005 Utanríkisráðuneytið

Viljayfirlýsing um samráð milli utanríkisráðuneyta Íslands og Indlands

Viljayfirlýsing um samráð milli utanríkisráðuneyta Íslands og Indlands var undirrituð í dag að viðstöddum A.P.J. Abdul Kalam, forseta Indlands og Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra. Undirritunin fór fram í Ráðherrabústaðnum og rituðu undir yfirlýsinguna ráðuneytisstjórar utanríkisráðuneytanna, þeir Gunnar Snorri Gunnarsson og Shashi U. Tripathi.

Í viljayfirlýsingunni kemur m.a. fram að utanríkisráðuneyti ríkjanna eru einhuga um að þróa vinsamleg samskipti landanna á grundvelli sáttmála Sameinuðu þjóðanna og eru sannfærð um mikilvægi þess að þróa regluleg skoðanaskipti og efla tvíhliða samstarf sín á milli. Ráðuneytin munu því hafa samráð um hagsmunamál landanna er varða tvíhliða samskipti og einnig alþjóðamál. Þau munu þróa samstarf í beggja þágu á ýmsum sviðum með því að koma á beinum tengslum milli stjórnarstofnana, opinberra stofnana og einkarekinna stofnana í löndum sínum.

Fyrstu viðræður milli utanríkisráðuneytanna samkvæmt yfirlýsingunni munu hefjast árið 2006 og verður þá m.a. fjallað um möguleika á starfsþjálfun í utanríkisþjónustu. Þar sem löndin tvö hafa ekki sendiráð í ríki hvors annars er samráðsferlið sem hér hefur verið lagður grunnur að mjög mikilvægt fyrir eflingu samskipta þeirra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta