Erindi frá BHM
Nefnd um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands
Reykjavík, hinn 31. maí 2005
Efni: Þátttaka og afstaða BHM á ráðstefnu um endurskoðun stjórnarskrárinnar
I
Vísað er í bréf nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands til Bandalags háskólamanna (BHM), dags. 20. apríl sl., ásamt dagskrá ráðstefnunnar „Stjórnarskrá til framtíðar“. Einnig er vísað í samskipti undirritaðs við ritara nefndarinnar og tölvuskeyti undirritaðs til nefndarritara 18. og 22. maí sl. og svör nefndarritara 22. og 24. maí sl. Beðist er velvirðingar á drætti á formlegu svari við erindi nefndarinnar.
II
Um leið og þakkað er fyrir boð nefndarinnar skal eftirfarandi upplýst um málsmeðferð innan samtakanna.
Stjórn BHM fjallaði um málið á fyrsta reglulegum fundi sínum eftir að erindið barst, þ.e. 27. apríl sl. Miðstjórn BHM, sem fer með stefnumarkandi vald í samtökunum, fjallaði um hugmyndir stjórnar á næsta reglulegum fundi sínum, 18. maí sl. Í umræðum á miðstjórnarfundi kom fram að nauðsynlegt væri að fjalla nánar um málið í stjórn og laganefnd BHM út frá nokkrum sjónarmiðum sem reifuð voru í miðstjórn. Stjórn BHM fjallaði um málið að nýju 25. maí sl. og laganefnd BHM hinn 30. maí sl. en þar sitja þrír kjörnir lögfræðingar auk formanns og framkvæmdarstjóra. Því til viðbótar má nefna að fjallað var um væntanlega stefnumörkun í málinu af hálfu BHM í vefriti BHM hinn 27. maí sl. Umfjöllun þessi öll er gerð í því skyni að gefa fulltrúa BHM á stjórnarskrárráðstefnu meira umboð til stefnumarkandi þátttöku f.h. samtakanna.
III
Í bréfi nefndarinnar var þess óskað að lýst yrði
a) í hvaða málstofu BHM vildi taka þátt og
b) hver væru helstu stefnumál BHM varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Ad a)
Eins og fram hefur komið í ofangreindum samskiptum við nefndarritara óskar BHM eftir þátttöku í 2. málstofu um þrískiptingu ríkisvalds – pólitíska forystu – virkt eftirlit og hefur undirritaður framkvæmdarstjóri verið tilnefndur og skráður fulltrúi BHM á ráðstefnunni.
Ad b)
Í umræðum í ofangreindum stofnunum BHM hafa komið fram þau sjónarmið að leggja beri áherslu á eftirfarandi atriði við endurskoðun stjórnarskrárinnar:
- Strangari þrískiptingu ríkisvalds, þ.e.a.s.:
a) Í fyrsta lagi: Meira sjálfstæði aðalhandhafa löggjafarvalds annars vegar og framkvæmdarvalds hins vegar, hvors gagnvart öðrum, svo sem með afnámi þingræðis og lausn ráðherra frá þingmennsku, a.m.k. á meðan þingmaður gegnir ráðherrastörfum.
b) Í öðru lagi: Sjálfstæðari staða dómstóla gagnvart einstökum öðrum handhöfum ríkisvalds, svo sem með lýðræðislegri umfjöllun um dómaraefni og vali dómara með fjölbreyttan bakgrunn. Þá verði einnig hugað að afnámi eina reglulega sérdómstólsins, Félagsdóms. - Sjálfstæðan rétt til bindandi þjóðaratkvæðis án þess að skert verði önnur úrræði sem til þess eru fallin að veita handhöfum ríkisvalds aðhald.
- Skýrari stöðu réttarheimilda á borð við lög og kjarasamninga gagnvart fjárhagsáætlunum í lagaformi, fjárlögum.
- Stjórnarskrá verði sett og henni breytt óháð þingkosningum, svo sem með sjálfstæðu stjórnlagaþingi eða þjóðaratkvæði.
Virðingarfyllst,
Gísli Tryggvason hdl.
framkvæmdarstjóri BHM.