Hoppa yfir valmynd
2. júní 2005 Forsætisráðuneytið

Vorfundur Vísinda- og tækniráðs, 2. júní 2005

Aukið fjármagn til samkeppnissjóða og verklag þeirra er mikilvægt tæki til að móta og framkvæma markvissa stefnu í rannsóknum og tækniþróun á Íslandi. Þetta kom fram í máli Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra og formanns Vísinda- og tækniráðs á fimmta fundi ráðsins í dag, 2. júní 2005. Vísinda- og tækniráð var stofnað í ársbyrjun 2003 sem tilraun til að samhæfa krafta stjórnvalda, vísindasamfélagsins og atvinnulífsins og er nú að fylgja eftir fyrstu stefnumótun sinni þar sem áherslurnar hafa einkum beinst að opinberum samkeppnissjóðum, eflingu háskólanna og skipulagi opinberra rannsóknarstofnana. Á fundinum kom ennfremur fram að hlutur samkeppnissjóða af heildarútgjöldum til rannsókna hefur vaxið úr 3% í 5% og af opinberum framlögum til rannsókna og þróunar úr 10% í 14%.

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem undirbúi sameiningu matvælarannsókna í eina stofnun. Markmið stofnunarinnar verði m.a. að efla alþjóðlega samkeppnishæfni matvælaframleiðslu og að styðja við vísindastarfsemi háskólastofnana. Þá verða Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins sameinaðar og ný tæknirannsóknastofnun mun m.a. sinna rannsóknum og tækniþróun í hátæknigreinum sem hafa beina tengingu við rannsóknir háskóla en liggja nær markaði.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra hefur skipað nefnd um fjármögnun nýsköpunar og er henni ætlað að leggja fram tillögur í haust. Segir ráðherra að nefndin muni m.a. leita víðtækrar samvinnu við fjármálafyrirtæki og fjárfesta. Þá muni nefndin skoða leiðir til að ýta undir fjárfestingar innlendra og erlendra aðila í hátæknigreinum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra segir mikilvægt að gæði rannsókna og hagræn áhrif háskóla verði metin samkvæmt mælanlegum þáttum og er tekið undir nauðsyn þess að gæði doktorsnáms lúti alþjóðlegum viðmiðum og kröfum.

Framundan eru ýmsar mikilvægar ákvarðanir sem taka þarf að vel athuguðu máli. Ákvarðanir sem ætlað er að treysta menningarlega og efnahagslega stöðu Íslands í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þannig að efnahagur og lífsgæði Íslendinga skipi þeim áfram í fremstu röð meðal þjóða. Í því sambandi vil skal fyrst nefna ákvörðun um fyrirkomulag og staðsetningu opinberra rannsóknastofnana til framtíðar. Á næsta starfsári ráðsins verður unnið að stefnumótun í málefnum vísinda og tækni fyrir tímabilið 2007-2009.

Formaður Vísinda- og tækniráðs er Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, en auk hans sitja í ráðinu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, Árni M. Matthiesen, sjávarútvegsráðherra og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Auk þess eiga sæti í ráðinu 14 fulltrúar vísinda, tækni og atvinnulífs og starfa þeir í tveimur starfsnefndum ráðsins: Vísindanefnd sem er undir forsæti Hafliða P. Gíslasonar, prófessors, en tækninefnd stýrir Hallgrímur Jónasson, forstjóri Iðntæknistofnunar.

Mynd: Vísinda- og tækniráð, júní 2005

Mynd: Vísinda- og tækniráð, júní 2005. Sjá mynd í fullri stærð (JPG - 592Kb).

Í Reykjavík, 2. júní 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta