Hoppa yfir valmynd
9. júní 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra sendir bréf til umhverfisráðherra Breta vegna Sellafield

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra hefur sent Margaret Beckett umhverfisráðherra Bretlands bréf vegna lekans í kjarnorkuendurvinnslustöðinni Sellafield. Í bréfinu lýsir umhverfisráðherra þungum áhyggjum vegna niðurstöðu rannsóknar sem gerð var eftir að lekinn kom í ljós.

Í bréfi sínu rekur umhverfisráðherra að rannsóknin hafi leitt í ljós að rör kunni að hafa byrjað að gefa sig í ágúst í fyrra og að talið sé að geislavirk efni hafi byrjað að leka um miðjan janúar í ár en lekinn hafi ekki komið í ljós fyrr en 19. apríl síðast liðinn. Þá bendi ummæli forstjóra Sellafield í fréttatilkynningu sem send var út vegna málsins til þess að öryggi í stöðinni hafi verið verulega ábótavant.

Umhverfisráðherra leggur áherslu á það í bréfinu að atvikið í Sellafield sé mjög alvarlegt og veki upp spurningar um almennt rekstraröryggi endurvinnslustöðvarinnar. Ef geislavirk efni bærust út í umhverfið frá Sellafield gætu afleiðingarnar orðið geigvænlegar fyrir íbúa norðurslóða.

Af þessum ástæðum fer Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra fram á að ríkisstjórn Bretlands geri fulla grein fyrir atvikinu í Sellafield, hvernig og hvers vegna það átti sér stað og til hvaða aðgerða ætlunin sé að grípa til að tryggja öryggi stöðvarinnar gagnvart umhverfinu.

Um leið minnir umhverfisráðherra í bréfinu á fyrri kröfur Íslands um að tryggt verði að mengun frá Sellafield sé hverfandi. Ef ekki sé hægt að ná því marki eru bresk stjórnvöld alvarlega hvött til að íhuga lokun stöðvarinnar.

Sendiherra Íslands í London Sverrir Haukur Gunnlaugsson afhenti Elliot Morley, varaumhverfisráðherra Bretlands bréfið til Margaret Beckett í morgun. Ráðherra fullvissaði sendiherra um það að íslensk stjórnvöld fengju allar upplýsingar um rannsókn lekans og aðgerðir sem ákveðnar verða í kjölfarið.

Bréf Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra til Margaret Becket umhverfisráðherra

Fréttatilkynning nr. 19/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta