Dómur Hæstaréttar um umhverfismat og starfsleyfi álvers í Reyðarfirði
Með dómi Hæstaréttar í dag í máli nr. 20/2005 vegna álvers í Reyðarfirði er fjallað um tvær ákvarðanir umhverfisráðherra. Önnur er ógilt en hin staðfest.
Með dómnum er ógiltur úrskurður umhverfisráðherra frá 15. apríl 2003 um að nýtt mat á umhverfisáhrifum álversins þurfi ekki að fara fram og mun umhverfismat því fara fram lögum samkvæmt. Forsendur dómsins eru þær að ekki hafi verið búið að gefa út starfsleyfi vegna upphaflegra áætlana um byggingu álvers Reyðaráls í Reyðafirði, sem fyrra umhverfismat fjallaði um. Í dómnum er ekki fjallað um umhverfisáhrif álversins eða mat Skipulagsstofnunar, sem ráðherra staðfesti í úrskurði sínum, á því hvort þau væru umtalsverð eins og gert var í dómi héraðsdóms. Niðurstaða dómsins byggist hins vegar á því að ekki hafi verið uppfyllt formskilyrði til að fara eftir ákvæði 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum um það hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati og því hafi nýtt umhverfismat þurft að fara fram.
Ákvörðun umhverfisráðherra frá 14. júlí 2003, um að vísa frá kæru Hjörleifs Guttormssonar vegna útgáfu starfsleyfis Umhverfisstofnunar fyrir álver í Reyðarfirði, var staðfest í Hæstarétti. Taldist hann ekki hafa sýnt fram á að hann ætti einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta um byggingu álversins og því ætti hann ekki aðild að málinu.
Í dómnum er ekki fjallað um gildi þeirra leyfa sem veitt hafa verið fyrir framkvæmdinni en fyrir liggja ýmis leyfi stjórnvalda, eins og starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Leyfin eru því í gildi.
Fréttatilkynning nr. 20/2005
Umhverfisráðuneytið