Umhverfisráðherra gefur út reglugerð um utanvegaakstur
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra hefur gefið út reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands, nr. 528/2005. Í reglugerðinni er áréttuð sú meginregla að óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega í náttúru Íslands. Kveðið er sérstaklega á um í hvaða undantekningartilvikum heimilt er að aka utan vega. Heimilt er að aka vélknúnum ökutækjum á jöklum svo og snævi þakinni og frosinni jörð svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum. Við nánar tiltekin störf, þ.e. landgræðslu, heftingu landbrots, línulagnir, vegalagnir, lagningu annarra veitukerfa, björgun, rannsóknir, landmælingar og landbúnað, er heimilt að aka utan vega að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sérstök ákvæði eru í reglugerðinni um umferð ríðandi manna og hjólandi, jafnframt því sem tekið er fram að akstur torfærutækja sé aðeins heimill utan vega á til þess samþykktum svæðum.
Með reglugerðinni eru settar ítarlegri og skýrari reglur en verið hafa um það, við hvaða aðstæður og við hvaða störf, heimilt er að aka utan vega. Reglugerðin er víðtækari en eldri reglugerð að því leyti að sérstök ákvæði eru nú sett um umferð ríðandi manna og hjólandi sem og akstur torfærutækja. Þá er með reglugerðinni brugðist við ósamræmi sem var milli eldri reglugerðar og gildandi náttúruverndarlaga um akstur utan vega.
Umhverfisráðuneytið leggur ríka áherslu á að akstur utan vega er óheimill og sú reglugerð sem nú hefur verið gefin út áréttar þetta. Umhverfisráðuneytið hefur einnig beitt sér með öðrum hætti gegn akstri utan vega og staðið fyrir auglýsinga- og kynningarátaki gegn utanvegaakstri, svo sem með auglýsingum, bæði sem ætlaðar eru erlendum ferðamönnum og innlendum ökumönnum, og með stuðningi við gerð sérstakra áróðursmiða gegn utanvegaakstri sem meðal annars hefur verið dreift í bílaleigubíla. Ennfremur vinna Landmælingar Íslands að gerð ítarlegs korts yfir aksturshæfa vegi á miðhálendi Íslands. Þá átti ráðherra í dag fund með bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu til að ræða möguleika á að bæta og auka við æfingaaðstöðu fyrir torfærubifhjól í nágrenni höfuðborgarinnar.
Fréttatilkynning nr. 21/2005
Umhverfisráðuneytið