Vantrú - erindi til stjórnarskrárnefndar 10. júní 2005
Ályktun samþykkt af félaginu Vantrú
Með hliðsjón af því
AÐ íslenskir borgarar aðhyllast fjölbreyttar lífsskoðanir;
AÐ borgaraleg réttindi séu í heiðri höfð;
AÐ lífsskoðanir manna séu jafnréttháar hverjar sem þær eru;
AÐ ríkisvaldið skuli ekki fara í manngreinarálit gagnvart ríkisborgurum;
AÐ 62. grein stjórnarskrár lýðveldisins standist ekki 65. grein sömu stjórnarskrár, og vegi sú síðarnefnda þyngra á metunum;
AÐ sýnt þykir að meirihluti Íslendinga vilji tafarlausan aðskilnað ríkisvalds og þjóðkirkju,
ÁLYKTAR félagið Vantrú
AÐ stefna beri að tafarlausum aðskilnaði ríkis og kirkju;
AÐ festa beri í sessi skilyrðislaust trúfrelsi í íslenskum lögum;
AÐ ríkisvaldið skuli vera veraldlegt og ekki láta sig varða trúmál. Í því felst að tekið skuli fyrir trúboð í grunnskólum;
AÐ Hagstofa Íslands hætti að halda skrá yfir hvaða trúfélögum fólk tilheyrir;
AÐ hætt verði að skrá fólk sjálfkrafa í trúfélög móður þegar það fæðist;
AÐ ríkið hætti að styðja og vernda sum trúfélög umfram önnur;
AÐ ríkið hætti að innheimta sóknargjöld og önnur gjöld fyrir trúfélög;
AÐ ríkið hætti að halda opinbera hátíðisdaga á trúarhátíðum OG
AÐ trúfélögum verði ekki veittar undanþágur eða ívilnanir frá fasteignagjöldum eða öðrum opinberum gjöldum.
Hér með skorar félagið Vantrú á íslenska ríkið, að þegar frumvarp um breytingar á stjórnarskrá verður lagt fyrir Alþingi - og þjóðina - verði þar á meðal frumvarp um aðskilnað ríkis og kirkju. Félagið Vantrú telur að hægt sé að útfæra þann aðskilnað þannig að hann verði Íslendingum til góðs, að eignum kirkjunnar verði ráðstafað skynsamlega, að frídögum verið hliðrað til eða lausnir fundnar, að trúfélög geti bjargað sér upp á eigin spýtur. Við teljum hag fólks best borgið með því að það sé fullkomlega frjálst að velja sér lífsskoðun og, ef það vill, skrá sig í félag um slíka lífsskoðun, en ríkið láti sig það ekki varða umfram önnur félög, enda séu landslög í heiðri höfð.
F.h. Vantrúar
Birgir Baldursson
formaður