Nýr rekstraraðili að Hótel Valhöll á Þingvöllum
Forsætisráðuneytið hefur undirritað samning við Kristbjörgu Kristinsdóttur til 5 ára um leigu á Hótel Valhöll á Þingvöllum fyrir veitingarekstur og gistiþjónustu. Gert er ráð fyrir að Hótel Valhöll opni á ný á þjóðhátíðardaginn 17. júní eftir gagngerar endurbætur á húsnæðinu. Samkvæmt samningnum verður boðið upp á veitingaþjónustu af öllu tagi og fyrsta flokks gistiþjónustu.
Kristbjörg lauk BS námi í viðskiptafræði af endurskoðendasviði frá Háskóla Íslands árið 1990. Að námi loknu hóf hún störf hjá Tómasi A. Tómassyni sem fjármálastjóri og starfaði hjá honum til 1997. Síðustu þrjú ár gengdi Kristbjörg starfi hótel- og framkvæmdastjóra á Hótel Borg. Þá á Kristbjörg og rekur Kaffibrennsluna í Pósthússtræti.
Kristbjörg er gift Agnari Reidari Róbertssyni og búa þau á jörðinni Jaðri í Hrunamannahreppi þar sem þau stunda hrossarækt og bjóða upp á tamningar og ýmislegt fleira sem snýr að hestamennsku.
Reykjavík, 14. júní 2005