Hoppa yfir valmynd
14. júní 2005 Utanríkisráðuneytið

Ráðsfundur Evrópska efnahagssvæðisins í Lúxemborg

Nr. 019

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Í dag var haldinn í Lúxemborg 23. ráðsfundur Evrópska efnahagssvæðisins. Fundurinn var sóttur af Davíð Oddssyni, utanríkisráðherra. EES-ráðið er samráðsvettvangur utanríkisráðherra EES-ríkjanna, þ.e. EFTA-ríkjanna innan EES og Evrópusambandsins.

Fundurinn hófst á umræðum ráðherranna um samskiptin við Rússland og horfur í Mið-Austurlöndum. Einnig var rætt um Vestur-Balkanskagann.

Að því búnu var fjallað um framkvæmd EES-samningsins og voru ráðherrarnir einhuga um að rekstur samningsins gengi vel.

Lýstu EFTA-ríkin stuðningi við áform Breta, sem taka við formennsku ESB í júlí, að leggja áherslu á að gera lög ESB skilvirkari m.a. með því að draga úr skrifræði innan Evrópusambandsins. Þessi leið er til þess fallin að greiða fyrir markmiðum Lisbon áætlunarinnar um að auka hagvöxt og fjölga störfum innan ESB.

EFTA-ríkin ítrekuðu áhyggjur sínar yfir banni ESB á notkun fiskimjöls í fóðri fyrir jórturdýr en þar hefur Ísland mikilla hagsmuna að gæta. EFTA-ríkin vísuðu til vísindalegra sjónarmiða og nýrrar tækniþróunar máli sínu til stuðnings og hvöttu ESB til að aflétta banninu.

Í lokin áréttuðu EFTA-ríkin mikilvægi þess að gagnkvæmni ríkti um gerð loftferðasamninga við önnur ríki. Með því yrði flugfélögum með staðfestu í EFTA-ríkjunum tryggður sami aðgangur að hinum sameiginlega innri markaði og flugfélögum aðildarríkja Evrópusambandsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta