Nútímavæðing norræns samstarfs
Ríkisstjórnir norrænu landanna hafa ákveðið að efla norrænt samstarf með því að auka skilvirkni þess. Í þeim tilgangi verður uppbygging Norrænu ráðherranefndarinnar einfölduð. Lagt er til að 11 ráðherranefndir annist framvegis formlegt samstarf ríkisstjórnanna í stað 18 mismunandi ráðherranefnda áður.
- Endurbæturnar eiga að styðja við pólitísk markmið samstarfsins. Auk þess eiga endurbæturnar að stuðla að skilvirkni og áþreifanlegum árangri. Norrænt samstarf á að auka hæfni á öllum sviðum - norrænt notagildi. Ráðherrar samtímans og stjórnmálamenn eru kaffærðir í tilboðum um alþjóðlega fundi og ráðstefnur og því ræður úrslitum um norrænt samstarf að fundirnir þyki mikilvægir, málefnalegir og árangursríkir. Þess vegna tryggir það einnig samstarfið til framtíðar að einfalda uppbyggingu og auka skilvirkni þess. Norrænt samstarf hefur þýðingu í sjálfu sér sem svæðisbundið samstarf innan ramma Evrópu.
Þetta segir Connie Hedegaard, samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku. Danmörk hefur í formennskutíð sinni í Norrænu ráðherranefndinni 2005 sett nútímavæðingu samstarfsins ofarlega á verkefnalistann.
Aðlögun pólitísks samstarfs á Norðurlöndunum felur fyrst um sinn í sér áherslu á markmið og árangur á eftirfarandi sviðum:
- Frekari þróun á menningarlegri samheldni
- Bætt skilyrði norrænnar samkeppnishæfni
- Aukin norræn samþætting
- Möguleikar á því að styðja við norræna merkjavöru á alþjóðlegum markaði
- Stuðla að samstarfi á fleiri sviðum en hingað til í norðurhluta Evrópu
- Miðlun reynslu og þekkingu milli norrænu ríkjanna
Hin nýja uppbygging samstarfsins
Út frá þessum áhersluatriðum mun samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar framvegis miðast við 10 málaflokka:
- Vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismál
- Atvinnu-, orku- og byggðastefnu (svæðismálefni)
- Sjávarútveg, landbúnað, skógrækt og matvælavinnslu
- Menningarsamstarf
- Jafnréttisstefnu
- Löggjafarstefnu
- Umhverfisverndarmál
- Félags- og heilbrigðismál (heilsu)
- Menntun og rannsóknir
- Efnahagsmál og fjármálastefnu
Ráðherranefnd mun starfa á sérhverju ofangreindra sviða. Ásamt norrænu samstarfsráðherrunum verða ráðherranefndirnar alls 11 í stað þeirra 18 sem nú starfa.
Lagt er til að ráðherranefndirnar fyrir orkumál, baráttu gegn fíkniefnum, upplýsingatækni, neytendamál, samgöngumál, byggðastefnu (svæðismálefni) og byggingar- og húsnæðismál verði lagðar niður sem sjálfstæðar ráðherranefndir.
Þó er gert ráð fyrir að mikilvægum samstarfsverkefnum á nefndum sviðum verði sinnt með öðrum hætti. Samstarfið um atvinnumál, orkumál og svæðisbundin álitamál verður falið einni ráðherranefnd fyrir atvinnu-, orku- og byggðamál.
Fíkniefnamál verða falin ráðherranefnd fyrir félags- og heilbrigðismál en einnig ráðherranefnd fyrir löggjafarmálefni. Ætlast er til að ráðherrar menntamála og rannsókna fari með upplýsingamál.
Önnur samstarfssvið, sem verða formlega lögð niður, má taka upp sem óformlegt ríkisstjórnasamstarf sé það vilji norrænu ríkisstjórnanna.
Undirbúningsvinnuna vann sérstakur stýrihópur sem byggðist á fulltrúum norræna samstarfsráðsins.
Norrænu samstarfsráðherrarnir samþykktu grundvallaratriði nýrrar uppbyggingar 15. júní 2005. Forsætisráðherrarnir fara yfir tillöguna 27.-28. júní 2005. Endanleg tillaga verður síðan send til ákvörðunar á fund samstarfsráðherranna 20.-21. ágúst 2005.
Samráð verður haft við Norðurlandaráð í ágústmánuði 2005 og með ráðherratillögu til þings Norðurlandsráðs þann 25.-27. október í ár.
Áformað er að ný uppbygging samstarfsins taki gildi 1. janúar 2006.
Frekari upplýsingar: Niels Refslund, ráðgjafi á skrifstofu framkvæmdastjórans, sími +45 33 96 03 21/gsm +45 21 71 71 16 tölvupóstfang [email protected] eða Torkil Sørensen, upplýsingaráðgjafi Norrænu ráðherranefndarinnar, sími +45 33 96 03 32/ gsm +45 21 71 71 43 tölvupóstfang [email protected].