Undirritun loftferðasamnings milli Íslands og Króatíu
Hinn 17. júní munu Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, og Ana Marija Besker, sendiherra Króatíu, undirrita loftferðasamning á milli Íslands og Króatíu í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.
Loftferðasamningurinn veitir flugfélögum landanna réttindi til að stunda áætlunarflug á milli Íslands og Króatíu með möguleikum á ýmsum tengingum við flug til annarra landa. Ennfremur fela ákvæði samningsins í sér víðtæk réttindi til leiguflugs með farþega og frakt. Samningurinn bætir aðstöðu íslenskra flugfélaga til að nýta tækifæri sem m.a. tengjast vaxandi vinsældum Króatíu sem ákvörðunarstaðar ferðamanna.
Viðræður um loftferðasamning milli Íslands og Króatíu hófust í Zagreb í júní 2003, milli fulltrúa utanríkisráðuneytisins, samgönguráðuneytisins, Flugmálastjórnar og sendinefndar frá Króatíu. Gengið var frá meginefni samningsins á fundunum í Zagreb en samkomulag náðist síðar um lokaatriði.
Formenn samninganefndanna voru Ólafur Egilsson, sendiherra, og Boris Smrecki, aðstoðar samgönguráðherra Króatíu. Aðrir í íslensku samninganefndinni voru þau Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri, Anna Jóhannsdóttir, sendiráðsritari í utanríkisráðuneytinu, Kristín Helga Markúsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, Ástríður Sch. Thorsteinsson, lögfræðingur hjá Flugmálastjórn og sérfræðingur hennar í gerð loftferðasamninga. Nefndinni til ráðuneytis í viðræðunum voru fulltrúar flugrekenda, þeir Arngrímur Jóhannsson frá Air Atlanta, Ragnhildur Geirsdóttir frá Icelandair, Einar Björnsson frá Íslandsflugi, Jón Karl Ólafsson frá Flugfélagi Íslands og Bjarki Sigfússon frá Bluebird.