Hoppa yfir valmynd
21. júní 2005 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherrar Norðurlanda: Samkomulag um framsal sakamanna.

Fréttatilkynning
Nr.22/2005

Dómsmálaráðherrar Norðurlanda efndu til árlegs fundar síns í dag og var hann haldinn á Skagen í Danmörku undir forsæti Lene Espersen, dómsmálaráðherra Dana. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Ráðherrarnir ræddu sáttaumleitanir í einkamálum og sakamálum, aðgerðir gegn ofbeldi og mörkin milli löggjafarvalds og dómstóla innan einstakra ríkja og alþjóðadómstóla. Í þeim umræðum kom fram, að á þjóðþingum einstakra ríkja gætir vaxandi gagnrýni á þá þróun, að dómstólar færu inn á valdsvið löggjafans í niðurstöðum sínum.

Þá urðu dómsmálaráðherrar Norðurlanda sammála um meginatriði nýs samnings um framsal sakamanna.

Í samningsdrögunum er gert ráð að málsmeðferð við framsal sakamanna á milli Norðurlanda verði einfölduð og stytt. Þegar eru í gildi reglur er gera framsal á milli Norðurlanda einfaldara en á milli annarra landa. Reglurnar er í samnorrænum lögum frá 1961 og er verið að þróa þær frekar nú.

Gert er ráð fyrir að málsmeðferðarfrestir styttist og framsetning og mat framsalsbeiðni verði einfaldari en nú er. Þá er gert ráð fyrir að felld verði niður krafa um tvöfalt refsinæmi við framsal eigin ríkisborgara milli Norðurlandanna. Þannig verði ekki unnt að synja um framsal á eigin ríkisborgara á þeirri forsendu, að verknaður sá, sem krafist er framsals fyrir sé ekki refsiverður í heimaríki þeirra.

Ríkisstjórn Íslands hefur að sínu leyti ákveðið að gera fyrirvara við þennan þátt samningsdraganna, þannig að ekki verði breyting á skilyrðum er varða tvöfalt refsinæmi frá núgildandi lögum. Íslenska ríkið muni þannig ekki framselja íslenskan ríkisborgara nema verknaður sá, sem honum er gefinn að sök, hafi verið refsiverður samkvæmt íslenskum lögum að því marki sem núgildandi lög frá 1961 mæla fyrir um.

Norrænir dómsmálaráðherrar urðu sammála um að stefnt skyldi að undirritun hins nýja samnings fyrir árslok þannig að hann gæti gengið í gildi í síðasta lagi árið 2007.

Reykjavík 21. júní 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum