93. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf
Tillaga að nýrri alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði fiskimanna náði ekki fram að ganga.
Alþjóðavinnumálaþingið var háð í Genf dagana 31. maí til 16. júní sl. Helstu málefni þingsins var skýrsla um aðgerðir til að framfylgja alþjóðasamþykktum um afnám nauðungarvinnu, vinnuskilyrði fiskimanna, aðgerðir til að auka atvinnu fyrir ungt fólk og umræður um gerð nýrrar rammasamþykktar um aðbúnað og hollustu á vinnustöðum. Fastur liður á dagskrá þingsins er umfjöllun um skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um framkvæmd aðildarríkjanna á alþjóðasamþykktum á sviði félags- og vinnumála.
Á þinginu fór fram síðari umræða um tillögu að nýrri alþjóðasamþykkt og tilmælum um vinnuskilyrði sjómanna um borð í fiskiskipum. Mikil ágreiningur var um gildissvið samþykktarinnar sem endurspeglaði mismunandi byggingarlag skipa í Asíu og Evrópu. Um tíma leit út fyrir að tekist hefði að jafna þann ágreining sem uppi var með því að láta ákvæði samþykktarinnar taka til fiskiskipa sem eru lengri en 24 metrar eða 175 mælingatonn eða stærri. Mikilvægar fiskveiðiþjóðir í Asíu þar á meðal Japanir lýstu því yfir að þessi málamiðlunartillaga kæmi ekki til móts við hagsmuni þeirra. Við atkvæðagreiðslu á þinginu varð niðurstaðan sú að einungis vantaði eitt atkvæði til að samþykktin fengi tilskilinn stuðning til að ná fram að ganga. Að fenginni þessari niðurstaðu samþykkti þingið tilmæli til stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um að málið verði tekið að nýju á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins árið 2007. Til skýringar skal þess getið að í umræddri tillögu að alþjóðasamþykkt er m.a. kveðið á ábyrgð útgerðarmanns, skipstjóra og sjómanna á fiskiskipum. Enn fremur um mönnun og hvíldartíma, fyrirkomulag á greiðslu launa, aðbúnað og fæði, heilsugæslu, vinnuvernd, tryggingar og um vernd vegna atvinnutengdra sjúkdóma, slysa eða dauða. Í viðaukum við samþykktina er m.a. að finna tilmæli um form ráðningarsamninga.
Á þinginu fór fram almenn umræða um efni nýrrar alþjóðasamþykktar um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Samkomulag náðist um gerð rammasamþykktar sem hefur að markmiði að auðvelda þróunarríkjum að smám saman bæta aðbúnað og auka öryggi á vinnustöðum. Drög að samþykktinni verða til síðari umræðu á Alþjóðvinnumálaþinginu að ári.
Fram kom í máli margra þingfulltrúa að mikið atvinnuleysi ungs fólks veldur víða miklum áhyggjum. Þingið samþykkti áætlun fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina um aðgerðir til að stuðla að fjölgun atvinnutækifæra fyrir ungt fólk. Á það var lögð áhersla að áætlunin yrði að vera skýr og markviss þar sem byggt væri á menntun og stuðningi við rétt ungs fólks í samræmi við alþjóðasamþykktir ILO og tækniaðstoð stofnunarinnar.
Mikilvægur þáttur í starfi Alþjóðavinnumálaþingsins er umfjöllun um skýrslu sérfræðinganefndar stofnunarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta sem fjalla um réttindi og skyldur í atvinnulífinu. Í undantekningartilvikum er heilum þingfundi nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta varið í umræðu um ástand í einstökum ríkjum. Þetta gerðist á 93. Alþjóðavinnumálaþinginu þegar fjallað var um meint brot Burma (Mayanmar) á alþjóðasamþykktum um afnám nauðungarvinnu. Þingið hvatti stjórnarnefnd ILO og aðildarríkja ILO um að grípa til harðari aðgerða gegn herforingjastjórninni í landinu. Einnig voru fordæmd viðvarandi brot stjórnarinnar í á alþjóðasamþykktum um félaga- og samningafrelsi. Þingnefnd Alþjóðavinnumálaþingsins um framkvæmd alþjóðasamþykkta fór einnig yfir slæmt ástand þessara mála í Hvíta-Rússlandi. Nefndin samþykkti tilmæli til stjórnarnefndar ILO um að senda sendinefnd til að aðstoða stjórnvöld við að koma á umbótum en einnig til að leggja mat á aðgerðir stjórnvalda til að koma til móts við gagnrýni sem áður hafði komið fram.
Þingið kaus fulltrúa úr röðum ríkisstjórna, atvinnurekenda og samtaka launafólks til setu í stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til næstu þriggja ára. Í stjórnarnefndinni sitja 56 aðalfulltrúar ( 28 fulltrúar ríkisstjórna, 14 fulltrúar atvinnurekenda og 14 fulltrúar launafólks). Auk þess sitja fundi stjórnarnefndarinnar 66 varafulltrúar (28 fulltrúar ríkisstjórna, 19 fulltrúar atvinnurekenda og 19 fulltrúar launafólks).
Um 3 000 fulltrúar ríkisstjórna, samtaka atvinnurekenda og launafólks sóttu þingið. Þingforseti var kosinn Basim Khalil Alsalim, vinnumálaráðherra Jórdaníu. Varaforsetar voru kosnir Andrew J. Finlay úr röðum atvinnurekenda, Hilda Anderson frá samtökum launafólks og Galo Chiriboga Zambrano úr hópi fulltrúa ríkisstjórna en hann er vinnumálaráðherra Ekvador. Sérstakir gestir þingsins og forstjóra alþjóðavinnumálamálaskrifstofunnar í Genf, Juan Somavia, voru Abdelaziz Bouteflika, forseti Alsír og forseti Arbabandalagsins og Olusegun Obasanjo, forseti Nígeríu, en hann er um þessar mundir formaður Einingarsambands Afríkuríkja. Sendinefnd Íslands á 93. Alþjóðavinnumálaþinginu skipuðu: Frá félagsmálaráðuneyti: Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri og Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins. Frá utanríkisráðuneyti: Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og Ingibjörg Davíðsdóttir sendiráðunautur í fastnefnd Íslands í Genf. Frá samgönguráðuneyti: Sverrir Konráðsson, sérfræðingur hjá Siglingamálastofnun. Frá Alþýðusambandi Íslands: Magnús Norðdahl lögfræðingur ASÍ, Sævar Gunnarsson, forseti Sjómannasambands Íslands og Ísleifur Tómasson starfsmaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Frá Samtökum atvinnulífsins: Hrafnhildur Stefánsdóttir og Jón H. Magnússon bæði lögfræðingar SA.