Afkoma landbúnaðarráðuneytisins árin 1999-2003
Í tilefni af grein Fréttablaðsins þann 21. júní sl. varðandi fjármál landbúnaðarráðuneytisins í ráðherratíð Guðna Ágústssonar á tímabilinu 1999-2003 telur ráðuneytið sérstaka ástæðu til að koma á framfæri nokkrum athugasemdum vegna villandi umfjöllunar sem þar kemur fram.
Í grein blaðsins kemur fram að ekki hafi fengist upplýsingar um fjáraukalög á tímabilinu og því voru útreikningar blaðsins miðaðir við fjárlög áranna. Þar fór verr, að birta niðurstöður sem aðalfrétt vitandi vits að svo mikilsverðar upplýsingar skorti, reyndar svo mikilvægar að þær rýra “fréttina” að stærstum hluta. Þessar upplýsingar eru til í birtum fjáraukalögum auk þess sem þær er að finna meðal annars fyrir hvern fjárlagalið í ríkisreikningi (samanber séryfirlit 4 á bls. 124 í ríkisreikningi 2003, landbúnaðarráðuneyti á bls. 125-126).
Í niðurstöðum blaðsins er því haldið fram að á umræddu tímabili hafi ráðuneytið farið rúma þrjá milljarða króna fram úr fjárlögum eða um 650 milljónir króna að meðaltali á ári sem sé vel yfir fjögurra prósenta viðmiðunarmarki fjármálaráðuneytisins. Hið sanna er að á þessu tímabili námu samþykkt fjáraukalög 1,6 milljarði króna og millifærslur og verðbætur 0,3 milljörðum króna. Við þetta bætast frávik á ríkistekjum frá áætlunum sem nam alls 1,6 milljarði króna. Útgjöldin voru því í reynd 0,3 milljörðum króna lægri en ráðuneytið fékk til ráðstöfunar á umræddu tímabili eða 0,6% í afgang og er það vel innan viðmiðunarmarkanna. Í þessu samhengi má einnig benda á að höfuðstóll ráðuneytisins var jákvæður um 224 millj. kr. í árslok 2003 samkvæmt ríkisreikningi samanborið við 43 millj. kr. í árslok 1998.
Þá ber að benda á að fjögurra prósenta viðmiðunarmark fjármálaráðuneytisins miðast við frávik heildarfjárheimilda og útkomu ríkisreiknings en ekki á milli fjárlaga og ríkisreiknings. Fjárheimildir hvers árs eru samtala af fjárlögum og fjáraukalögum ársins, millifærðum fjárheimildum og verðbótum. Við þær heimildir bætast frávik á mörkuðum tekjum og rekstrartekjum ráðuneytisins frá því sem þessar tekjur voru áætlaðar í fjárlögum og fjáraukalögum. Mikilvægt er að í samanburði af þessu tagi sé tekið tillit til allra þeirra tekjustofna sem hver fjárlagaliður hefur til ráðstöfunar hverju sinni.
Við samþykkt fjárlaga hverju sinni eru grunnlínurnar vissulega lagðar, en óhjákvæmilega verða jafnan eðlileg frávik við framkvæmdina sem taka þarf tillit til, svo sem vegna þess að verkefni flytjast til á milli tímabila eða að fram koma útgjöld sem ekki varð séð fyrir við gerð fjárlaga og aflað er heimilda fyrir síðar með samþykkt fjáraukalaga á Alþingi. Þá eru markaðir tekjustofnar og rekstratekjur sem hljótast af lögbundnum útgjöldum eða þjónustu sem ekki er unnt að fastsetja með fjárlögum heldur ráðast af framgangi efnahagslífsins hverju sinni.
Með þessari athugasemd er ekki á neinn hátt verið að reyna að réttlæta þau tilvik þar sem útgjöld á einstökum liðum fara fram úr fjárheimildum. Slík tilvik eiga jafnan sínar skýringar og eru ástæður þess meðal annars reifaðar í grein blaðsins. Þess í stað vill ráðuneytið koma á framfæri sanngjarnari umfjöllun um málið og mælist til þess að Fréttablaðið, sem og aðrir fjölmiðlar, reyni í framtíðinni að vanda betur til fréttaflutnings síns af þessu tagi. Það hlýtur að vera forgangskrafa ekki síst fyrir þá fjölmiðla sem vilja láta taka sig alvarlega.
Afkoma landbúnaðarráðuneytisins 1999-2003