Undirritun gagnkvæms samnings um vernd fjárfestinga á milli Mexíkó og Íslands.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 16/2005
Fyrr í dag undirritaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, f.h. Íslands, gagnkvæman samning við Mexíkó um vernd fjárfestinga, en ráðherrann hefur undanfarna daga farið fyrir sendinefnd íslenskra athafnakvenna sem stödd er í Mexíkó. Fyrir hönd Mexíkó undirritaði samninginn Fernando Canales, efnahagsmálaráðherra.
Samhliða fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna og Mexíkó, sem fram fóru á árinu 2000, áttu íslensk og mexíkósk stjórnvöld tvíhliða samningaviðræður um gerð gagnkvæms fjárfestingasamnings á milli landanna. Þær viðræður leiddu síðan til þess að samningamenn Íslands og Mexíkó árituðu samningsdrög í júlí 2001.
Fjárfestingarsamningurinn tryggir jafnréttis- og bestukjör fyrir íslenska fjárfesta í Mexíkó og gagnkvæmt. Í honum er ennfremur að finna m.a. ákvæði um skjótvirka lausn deilumála sem upp kunna að koma á milli fjárfestis og gistiríkis, ákvæði um eignarnám og eignarnámsbætur og ákvæði um frjálsa fjármagnsflutninga. Að undirritun lokinni fer samningurinn í fullgildingarferli hjá samningsaðilum og tekur hann gildi að því loknu.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra sækir á ferð sinni alþjóðlega ráðstefnu kvenna þar sem fjallað er um hvernig auka megi efnahagsleg áhrif kvenna. Valgerður Sverrisdóttir mun ávarpa ráðstefnuna, í ávarpi sínu fjallar hún um hvernig stuðla megi að því að þátttaka kvenna í atvinnurekstri aukist frá því sem nú er.
Reykjavík, 24. júní 2005