Skipun í embætti forstöðumanns Rannsóknarnefndar flugslysa
Sturla Böðvarsson hefur skipað Þorkel Ágústsson til að vera forstöðumaður Rannsóknarnefndar flugslysa frá 1. september 2005.
Þorkell hefur gengt stöðu aðstoðarforstöðumanns Rannsóknarnefndar flugslysa (RNF) frá 1. september 2004, þegar lög um nefndina tóku gildi, en fyrir þann tíma, frá árinu 2002, var hann varaformaður RNF.
Þorkell er verkfræðingur að mennt en auk þess hefur hann sótt námskeið og hlotið þjálfun við rannsóknir flugslysa og þyrluslysa, þjálfun við stjórnun á rannsóknum flugslysa og þjálfun við rannsókn á mannlegum þáttum flugslysa auk fleiri námskeiða sem gagnast við störf hans hjá rannsóknarnefndinni.
RNF starfar í samræmi við lög um rannsókn flugslysa nr. 35/2004, en nefndin var stofnuð árið 1996. Fyrir þann tíma voru rannsóknir á flugslysum og atvikum á hendi Flugslysanefndar og Rannsóknardeildar Flugmálastjórnar Íslands. RNF starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum.
Nefndin annast rannsókn flugslysa, flugatvika og flugumferðaratvika samkvæmt ofangreindum lögum og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Marmið flugslysarannsókna er að greina orsakaþætti flugslysa í því skyni að koma í veg fyrir að flugslys endurtaki sig og stuðla að því að öryggi í flugi megi aukast.