Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2005 Matvælaráðuneytið

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

Á nýliðnu þingi voru samþykkt ný lög um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005. Samkvæmt þeim lögum tekur ný stofnun, Neytendastofa, til starfa hinn 1. júlí og tekur hún við hlutverki Löggildingarstofu sem lögð er niður frá sama tíma og hluta af þeim verkefnum sem áður voru á starfssviði Samkeppnisstofnunar. Þannig mun Neytendastofa annast framkvæmd laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eins og nánar er kveðið á um í lögum um það efni. Þá annast stofnunin einnig dagleg störf og undirbúning mála fyrir talsmann neytenda. Neytendastofa fer með rafmagnsöryggismál eins og kveðið er á um í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Einnig hefur stofnunin yfirumsjón með lögmælifræði og hagnýtri mælifræði og sér um framkvæmd laga um vog, mál og faggildingu. Neytendastofa mun einnig leysa af hendi þau verk sem henni eru falin í öðrum lögum. Auk þessara verkefna er Neytendastofu ætlað að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála og beita sér fyrir því að gerðar verðir rannsóknir á því sviði. Forstjóri hinnar nýju stofnunar hefur verið skipaður Tryggvi Axelsson sem áður gegndi starfi forstjóra Löggildingarstofu. Í lögunum um Neytendastofu og talsmann neytenda er gert ráð fyrir nýju embætti, embætti talsmanns neytenda og tekur hann til starfa hinn 1. júlí. Gísli Tryggvason hefur verið skipaður talsmaður neytenda. Talsmanni neytenda er ætlað að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og stuðla að aukinni neytendavernd. Hlutverk talsmannsins fellst m.a. í því að:

  1. taka við erindum neytenda,
  2. bregðast við þegar hann telur brotið gegn réttindum og hagsmunum neytenda,
  3. gefa út rökstuttar álitsgerðir ásamt tillögum um úrbætur,
  4. setja fram tillögur um úrbætur á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum er varða neytendur sérstaklega,
  5. kynna löggjöf og aðrar réttarreglur er varða neytendamál.

Neytendastofa og embætti talsmanns neytenda eru til húsa í Borgartúni 21.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum