Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2005 Matvælaráðuneytið

Hvalveiðar í vísindskyni

Hvalarannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar var lögð fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins árið 2003 í samræmi við reglur ráðsins. Áætlunin gerir ráð fyrir því að 200 hrefnur, 200 langreyðar og 100 sandreyðar verði veiddar á rannsóknatímabilinu.

Sumarið 2003 hófst framkvæmd hrefnuhluta áætlunarinnar, en ekki hefur enn verið ákveðið að hefja framkvæmd langreyðar- eða sandreyðarhlutans. Einnig var ákveðið að taka færri dýr en upphaflega var gert ráð fyrir en 36 hrefnur voru teknar árið 2003 og 25 hrefnur voru teknar í fyrra. Rannsóknaáætlunin er þó óbreytt þar sem gert er ráð fyrir að 200 hrefnur verði teknar á rannsóknatímabilinu.

Við framkvæmd rannsóknaáætlunarinnar á þessu ári verður haldið áfram á sömu braut og verða veiðarnar aftur í frekar smáum stíl. Þannig verða gefin út leyfi fyrir því að veiddar verði allt að 39 hrefnur á þessu ári og þar með verði alls lokið við veiðar á 100 hrefnum af þeim 200 sem áætlunin gerir ráð fyrir. Veiðunum verður stjórnað af Hafrannsóknastofnuninni.

Umræddar veiðar eru í samræmi við stofnsamning Alþjóðahvalveiðráðsins og með þeim er vilji Alþingis framkvæmdur, sbr. ályktun Alþingis frá 10. mars 1999.

Samkvæmt 8. gr. stofnsamnings Alþjóðahvalveiðiráðsins fylgir réttinum til að stunda hvalveiðar í vísindaskyni sú skuldbinding að nýta afurðir hvalanna sem eru veiddir. Afurðir þeirra hrefna sem verða veiddar í ár verða nýttar eftir því sem hægt er þótt veiðarnar séu í vísindalegum tilgangi, eins og raunin er almennt með þær afurðir sem falla til við rannsóknastarfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar.

Vísbendingar eru um að stærð hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu nytjafiska, þ.m.t. þorsks, en mikil óvissa er um þessi áhrif einkum vegna skorts á gögnum um fæðusamsetningu hrefnu hér við land. Megin markmið þessara rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar er að kanna betur hlutverk hrefnu í vistkerfi hafsins í kringum Ísland. Ljóst er að nytjafiskar eru hluti af fæðu hrefnu, en samspil fiska og hrefnu í vistkerfinu er lítt þekkt. Í ljósi mikilvægis sjávarútvegs fyrir Ísland er nauðsynlegt að hafa góðar vísindalegar upplýsingar um áhrif hrefnu á afrakstur nytjastofna og að geta sett hrefnu með fullnægjandi hætti inn í fjölstofnalíkön. Rannsóknirnar hafa jafnframt önnur markmið, sem m.a. tengjast líffræði hrefnu og erfðafræði. Nánari upplýsingar um rannsóknirnar er að finna á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar www.hafro.is.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum