Nefnd um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra skipaði í dag níu manna nefnd sem fjalla á um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi.
Nefnd sem skipuð var fulltrúum allra stjórnmálaflokka skilaði skýrslu um fjármál stjórnmálaflokkanna árið 1998 og komst þar einróma að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að setja lög um þau mál. Forsætisráðherra sagði hins vegar á Alþingi í vor að umræða um þessi mál hefði aukist síðustu ár og misseri og því hefði hann ákveðið að skipa nýja nefnd til að fjalla um málið.
Nefndina skipa þrír fulltrúar frá Sjálfstæðisflokki, tveir frá Framsóknarflokki, tveir frá Samfylkingu, einn frá Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og einn frá Frjálslynda flokknum.
Fulltrúar Framsóknarflokks eru Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, sem jafnframt er formaður nefndarinnar og Helgi S. Guðmundsson, formaður fjárlaganefndar Framsóknarflokksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks eru Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sem jafnframt er varaformaður nefndarinnar, Einar K. Guðfinsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og Gunnar Ragnars, formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Fulltrúar Samfylkingar eru Gunnar Svavarsson, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og Margrét S. Björnsdóttir, forstöðumaður stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er Kristín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fulltrúi Frjálslynda flokksins er Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur.
Ritari nefndarinnar er Árni Páll Árnason héraðsdómslögmaður.
Í Reykjavík, 5. júlí 2005.